Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:39:37 (7000)

2000-05-08 13:39:37# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér hafa að mörgu leyti spunnist athyglisverðar umræður um þessa skýrslu. Ég stenst þó ekki þá freistingu að óska hv. þm. Sighvati Björgvinssyni til hamingju með að hafa verið endurkosinn formaður Alþfl., ekki veitir af að kjósa formann yfir þann flokk til að geta haldið til haga stefnumiðum hans í ESB-málum því ekki virðist Samfylkingin gera það.

Ég vil benda á að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði nánast eins og formaður Samfylkingarinnar hefði ekki verið í salnum, hefði ekki verið viðstaddur og ekkert komið nærri umræðunum. Það er athyglisvert í allri þessari umræðu hversu lágur og lítill svipur er á Samfylkingunni í þessu gamla baráttumáli Alþfl. og verður nú ljóst af því að þessi skýrsla í heild hefur orðið þeirri grein Samfylkingarinnar sem vill aðild að ESB mikil vonbrigði. Þeir voru búnir að byggja upp mikla spennu og væntingar til þessarar skýrslu. Nægir þar að vitna í orð þeirra þegar tilkynnt var um að skýrslan færi í vinnslu. En svo kemur skýrslan og er ekki rædd fyrr en eftir stofnfund Samfylkingarinnar. Hún var hins vegar lesin ítarlega fyrir stofnfund Samfylkingarinnar og niðurstaðan er sú að menn treysta sér ekki til að mæla með aðild að ESB. Svo er nú komið fyrir þessum gömlu hagsmunamálum Alþfl. að menn hafa gersamlega misst niður merkið.

Ég vil taka það sérstaklega fram að menn þurfa að lesa þessa skýrslu með sérkennilegum gleraugum ef þeir ætla að komast að þeirri niðurstöðu að í skýrslunni standi að aðild að ESB sé hagstæð íslenskum landbúnaði. Ég veit ekki hvernig nýskipaður formaður Samfylkingarinnar les þessa skýrslu en það er hægt að vitna í þessa skýrslu með mjög einföldum hætti.

,,Nokkuð öruggt er að matvælaiðnaðurinn mundi einnig eiga undir högg að sækja gagnvart frjálsum innflutningi og bændur hér á landi gætu þar með lent í vandræðum með afsetningu afurða sinna.``

Er hægt að stunda landbúnað ef menn geta ekki afsett afurðir sínar? Það er nýmæli fyrir mér. Mér sýnist þetta ekki einungis kveða upp dóm yfir matvælaiðnaðinum heldur og dóm yfir bændastéttinni.

Fyrst hér situr hv. þm. Sverrir Hermannsson og undraðist þann þunga dóm sem ég felldi yfir ESB og þá náttúrlega stofnanir ESB., þá verð ég að benda hv. þm. á að ég var að vitna í ummæli franskra blaða, meira að segja þess blaðs sem einna helst er kallað málgagn sósíalista í Frakklandi, Le Monde, um framkvæmdastofnanirnar. Þetta voru tilvitnuð orð sem ég fór með. En það vekur líka athygli að hv. þm. lét þess sjálfur getið að honum hafi hrosið hugur við ýmsu innan ESB og styrkjakerfisins sérstaklega.

Í lok máls míns ætla ég að taka fram að það vakti líka mikla athygli mína að í umfjöllun formanns Samfylkingarinnar, um kosti þess að gerast aðili að ESB, þá var ítrekað rætt um kosti þess að gerast aðilar að styrkjakerfi ESB. Þetta er mjög athyglisvert vegna þess að 1995 birtist skýrsla Háskóla Íslands sem var unnin á vegum þáv. ríkisstjórnar. Það var Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. utanrrh., sem ákvað að láta gera þessa skýrslu á vegum ríkisstjórnarinnar. Í því bréfi sem hann skrifaði til Háskóla Íslands til að fá skýrslurnar hafði samþykkt ríkisstjórnarinnar hins vegar breyst lítillega. Það varð tilefni utandagskrárumræðu hér eins og sumir muna. Það átti ekki að kanna kosti aðildar heldur einkum og sér í lagi kosti þess að gerast aðilar að styrkjakerfi Evrópusambandsins. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar er enn sú sama að þess leyti. Hún er fólgin í því að við séum nauðbeygð til þess að ganga í ESB og eini kosturinn við það sé að við gerumst styrkþegar. Ég verð að segja eins og er: Þetta er ekki gæfuleg framtíðarsýn.