Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:44:24 (7001)

2000-05-08 13:44:24# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að umræðan hér hafi fyrir margra hluta sakir verið athyglisverð. Spurningarnar sem vakna í mínum huga eftir umræðuna eru í raun þessar: Eru engir stuðningsmenn þess hér á Alþingi að við göngum í Evrópusambandið? Hvorki þingmenn né flokkar lýstu slíku yfir. Enginn lýsti því sem sinni skoðun í þessari umræðu. Eða kjósa stuðningsmenn aðildar alfarið að ræða afstöðu sína í samhengi við nauðsyn þess að athuga málin, að fylgjast með, að ESB sé að veikjast o.s.frv.? Þýðir það að athuga málin að við eigum að ganga í Evrópusambandið? Er ekki, herra forseti, hægt að hafa umræðuna skýrari en þetta? Ég vona að mér leyfist að spyrja, herra forseti, og ég vænti þess að það hafi vakið athygli hjá öðrum en mér að þetta er niðurstaða umræðunnar sem nú er senn að ljúka.

[13:45]

Ég held í öðru lagi, herra forseti, að afar nauðsynlegt sé að við ræðum Evrópumálin, sem við munum gera ef að líkum lætur í framhaldinu, í samhengi við þróun alþjóðastjórnmála og viðskiptamála að öðru leyti. Það er nú svo að þróun í alþjóðastjórnmálum er að mörgu leyti mótsagnakennd. Annars vegar gætir ákveðinnar tilhneigingar til blokkamyndunar þar sem er Evrópusambandið, NAFTA og Suðaustur-Asíuríkin. Hin vegar eru í gangi tilraunir til að auka alþjóðafríverslun eða fríverslun á alheimsgrunni. Á þessar mótsagnir hafa menn iðulega bent og þær þurfum við auðvitað að hafa í huga og meta m.a. í ljósi stöðu okkar, sem erum jú á mörkum heimsálfa, ekki bara tveggja heldur frekar þriggja eða fleiri.

Í þriðja lagi tel ég að afar mikilvægt sé að menn horfi til möguleika Íslands sem sjálfstæðs og óháðs ríkis og til legu landsins. Auðvitað er Evrópa gífurlega mikilvæg og við sem Evrópuþjóð og markaðir okkar þar og viðskipti, bæði innflutnings og útflutnings, eru mikilvægir. En það er samt ljóst, herra forseti, að að mörgu leyti liggja framtíðarmöguleikarnir ekki síður annars staðar. Sóknarfæri okkar liggja kannski ekki síður í því að nema ný lönd í þeim efnum. Ég vil þar sérstaklega nefna í fyrsta lagi aukin samskipti og viðskipti við Kanada. Ég tel engan vafa á því að þangað getum við haft mikið að sækja. Í öðru lagi Norður-Ameríku sem slíka. Ég nefni fylkið Alaska sem hefur mikinn áhuga á samskiptum við Ísland sem hefur því miður að sáralitlu leyti verið endurgoldinn. Alaskamenn hafa haft áhuga á samstarfi við Íslendinga t.d. á sviði flugsamgangna og horft á mögulega tengingu til Evrópu gegnum Ísland en lítið orðið úr þeim áformum.

Ég nefni í þriðja lagi Japan og Suðaustur-Asíu sem þrátt fyrir ákveðið bakslag í efnahagsmálum á undanförnum árum eru á uppleið á nýjan leik og að allra dómi verða vaxandi markaðir, hin fjölmennu ríki Asíu að Kína meðtöldu þar sem kaupmáttur ekki bara tuga milljóna og hundruða milljóna heldur milljarða fer nú sem betur fer vaxandi.

Í fjórða og síðasta lagi en ekki síst nefni ég Rússland. Rússland mun ná sér á strik á nýjan leik. Að þessum mörkuðum og samskiptum við þau svæði, ekki síður en Evrópusambandið, eigum við að huga og meta möguleika okkar sem sjálfstæðrar þjóðar einmitt í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, svo enginn misskilji það, að margt af því sem hefur verið að gerast í nánara samstarfi ríkja á meginlandi Evrópu sé gott fyrir þau ríki, sé gott fyrir frið og stöðugleika í álfunni. En það er ekki þar með sagt að Ísland sem eyja úti í Atlantshafi með mjög sérstakar aðstæður og mjög sérstakt efnahagslíf eigi endilega erindi inn í þá mynd. Margt bendir til þess að Evrópusambandsins bíði miklir erfiðleikar við að koma stækkuninni saman og þær breyttu aðstæður sem það mun hafa í för með sér. Á þröskuldinum bíða fjölmenn en fátæk ríki og misvægi lífskjara og félagslegra aðstæðna innan Evrópusambandsins er dæmt til að aukast þegar þau lönd fá aðild, þegar milljónatugir fátækra bænda í Austur-Evrópu banka á dyrnar og krefjast hlutdeildar sinnar í styrkjunum.

Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að hafa það sem markmið að styðja við uppbyggingu í Austur-Evrópu og ég sæi ekki eftir fjármunum frá Íslandi sem færu í það að hjálpa vanþróuðum ríkjum í austanverðri álfunni á legg. En ég teldi hentugra að við greiddum þá fjármuni án aðildar að Evrópusambandinu en í gegnum hana.