Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:49:53 (7002)

2000-05-08 13:49:53# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram og má almennt segja að þeir sem hafa tekið þátt í henni eru ánægðir með þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. En sú tilhneiging hefur verið í umræðunni alveg eins og í umræðunni í þjóðfélaginu að undanförnu að túlka skýrsluna á mismunandi hátt.

Ég tel að það sé einkenni skýrslunnar að hún sýni svo ekki verði um villst að við eigum val í þessum efnum á sama hátt og við áttum val þegar við gengum inn í hið svokallaða Evrópska efnahagssvæði og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því á hverjum tíma hvað við erum að gera.

Ég held að tveir hv. þm. hafi lagt á það áherslu í umræðunni að sá sem hér stendur hafi ekki treyst sér til að greiða atkvæði með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en lofi hann nú í hástert. Það er rétt að ég greiddi ekki atkvæði með þeim samningi, ég sat hjá vegna þess að ég sá á honum ýmsa annmarka og hefði viljað ná betri samningi. Þannig er það ávallt þegar við gerum mikilvæga samninga að þýðingarmikið er að þeir séu gagnrýndir málefnalega og yfirleitt eru allir mikilvægir samningar þess eðlis að við mundum vilja sjá betri niðurstöðu. Það var tilhneiging þá hjá sumum þeim sem mæltu með þeim samningi að lýsa honum sem einhverju eilífu sæluríki, einhverri blómabrekku sem ekki hefði neina galla.

Auðvitað hefur þessi samningur mikla galla og þeim göllum er líka lýst í skýrslunni. En ekki er þar með sagt að við hefðum ekki átt að gera samninginn. Einnig er alveg ljóst að á þeim tíma vorum við á mörkum þess hvort sá samningur stæðist stjórnarskrá okkar eða ekki og það hefur komið enn betur í ljós. Og það var eitt atriðið sem þá var uppi í þeirri gagnrýni. Fram hjá þessu verður ekki gengið.

En enn á ný eigum við val og við eigum betra val en margar þjóðir Austur-Evrópu sem eiga í reynd ekkert annað val en að ganga í Evrópusambandið og þau einbeita sér að því. Ég tel að við eigum tvo kosti. Við eigum annars vegar þann kost að byggja áfram á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið með þeim kostum og göllum sem sá samningur hefur og ég tel að þeir gallar hafi komið enn betur í ljós og þeir veikleikar sem eru í þeim samningi.

Ég hef haldið því fram að vel hafi gengið að reka þann samning og það er ástæða til fyrir okkur að vera tiltölulega ánægð með hann eins og það hefur gengið. Og það má segja að Evrópusambandið sé bærilega ánægt með hann líka. En hvort sem okkur líkar það betur eða verr veitir Evrópusambandið þeim samningi minni og minni athygli og minni og minni tími fer í að sinna honum af þess hálfu. Tilhneiging er til þess að ná ýmsum hlutum undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem við teljum að eigi að vera hjá Eftirlitsstofnun EFTA, svo eitthvað sé nefnt. Þessu getum við ekki gengið fram hjá.

Það er alveg eins með hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, að á henni eru ýmsir ágallar, miklir ágallar, sem við stöndum frammi fyrir. En það leysir okkur ekkert undan skyldunni að fjalla um þessi mál. Það er ekkert hægt að afgreiða málið, eins og mér finnst stundum vera tilhneiging til, þ.e. að vegna þess að slíkir ágallar séu, bæði á Evrópusambandinu annars vegar þá komi það ekki til greina, og vegna þess að ágallar séu hins vegar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið komi ekki heldur til greina að búa lengur við hann. Málið er miklu flóknara en það.

Hér var sagt í umræðunni, ef ég man rétt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að íslensku þjóðinni hefði aldrei vegnað betur. (SJS: Á lýðveldistímanum.) Á lýðveldistímanum? Já. Það er mér alveg nóg að fjalla um lýðveldistímann, ég ætla mér ekki að fara lengra aftur í tímann en það kemur mér á óvart ef það er talið að okkur hafi vegnað betur fyrir þann tíma meðan við vorum undir Dönum. Það hélt ég að þyrfti ekki að ræða, en ég er alveg tilbúinn til þess.

En hv. þm. sagði, og ég tek undir það með honum, að íslensku þjóðinni hefði aldrei vegnað betur. Þetta eru stór orð en þau eru sönn. Hv. þm. sagði að okkur hefði vegnað svo vel m.a. vegna þess að við værum sjálfstæð þjóð og við hefðum haldið vel á sjálfstæði okkar. Ég held að það sé líka rétt.

En ekki er þar með sagt að okkur muni alltaf vegna vel um alla framtíð, það er ekkert sjálfgefið. Við verðum að halda vel á málum okkar eins og við höfum gert á undanförnum árum. Meðal annars höfum við tekið ákvarðanir um að opna samfélag okkar meira. Samkeppni er meiri hér en oft áður og mikill kraftur er í íslensku efnhags- og þjóðlífi. Alveg á sama hátt og þetta hefur gerst vegna þess að við höfum tekið margar veigamiklar ákvarðanir, m.a. í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd, þá mun okkur ekki vegna vel í framtíðinni nema við höfum kjark til þess að takast á við þær aðstæður sem verða uppi á hverjum tíma. Og það er einmitt það sem við þurfum að gera í þessu máli.

Ég sagði í ræðu minni að ég teldi að ekki lægi mjög mikið á. Einnig kom skýrt fram í ræðu minni að hér væri ekki um neina nauðung að ræða. Hins vegar er ljóst að áhrifa í þessu máli gætir m.a. af því hvað aðrir gera. Við Íslendingar erum ekki þannig staddir, frekar en aðrar þjóðir, að okkur komi ekkert við hvað gerist í kringum okkur eða t.d. hvað gerist almennt að því er varðar hin Norðurlöndin. Staða okkar er ekki með þeim hætti að við séum ekkert háð öðrum þjóðum að einu eða öðru leyti og þess vegna getum við látið sem ekkert sé. Þannig er þetta ekki og því miður er það svo að þó að ýmsir vilji fá alveg skýrar línur í þetta mál í eitt skipti fyrir öll, að þetta eða hitt komi aldrei til greina, þá er það einfaldlega óskynsamlegt vegna þess að þá eru menn að víkja frá því sem á alltaf að vera leiðarljósið að kjör íslensku þjóðarinnar og hagsmunir íslensku þjóðarinnar eigi að vera í fyrirrúmi. Við hljótum að taka afstöðu út frá því hvað við teljum vera íslensku þjóðfélagi fyrir bestu og hvernig við tryggjum best kjör þjóðarinnar til frambúðar. Það hlýtur að vera leiðarljósið.

Ef niðurstaðan er sú að við getum ekki tryggt kjör þjóðarinnar til frambúðar vel nema með aðild að Evrópusambandinu, þá eigum við ekki að hika við að gera það. Ef við teljum að við tryggjum kjör íslensku þjóðarinnar best með því að byggja áfram á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þá eigum við heldur ekki að hika við það. En við verðum að horfa til allra átta, eins og við höfum alltaf gert, án þess að útiloka eitt eða neitt í þeim efnum.

Auðvitað er á margan hátt óþægilegt að vera í slíkri stöðu og geta ekki tekið alveg skýrar línur um það að svona skuli þetta vera. Og þeim mönnum hlýtur í sjálfu sér að líða nokkuð vel sem geta ákveðið það um alla framtíð að þetta eigi bara að vera svona. (Gripið fram í.) Ég var nú ekki að hugsa um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sérstaklega í þessu máli eða vellíðan hans þó að ég fagni því að hann er orðinn betri í fætinum og er á batavegi og ég tel það vera ánægjuefni að svo skuli vera. En ég átti ekkert sérstaklega við hann í þessu efni. Ég var fyrst og fremst að segja að það er því miður ekki staðan og þess vegna mun umræðan halda áfram.

[14:00]

Ég tel að það standi verulega upp á ýmis hagsmunasamtök í landinu að fjalla um þetta mál og þau verða að gera það á næstunni. Hins vegar finnst mér skrýtið þegar framkvæmdastjóri ASÍ kemur fram og er með ádeilu á að ekki skuli fjallað nægilega vel um vinnumarkaðsmál og þeim ýmsu samþykktum sem teknar hafa verið upp séu ekki gerð skil hér. Ef við hefðum unnið skýrsluna þannig þá hefði hún ekki verið 300 síður heldur a.m.k. 3.000 síður. Það var engin tilraun gerð til þess að leysa hvorki ASÍ, LÍÚ eða vinnuveitendur almennt undan því að fjalla um málið í áframhaldinu þannig að mér hefur fundist það afskaplega sérkennileg gagnrýni sem Samfylkingin hefur að nokkru leyti tekið upp. Ég vísa henni á bug. En þar með er ekki sagt að umfjöllun um þessi mál sé lokið. Ég hef lagt á það áherslu að við verðum að halda áfram að ræða þessi mál og ég kalla m.a. eftir frekari umræðu innan ýmissa hagsmunasamtaka í landinu því að við hljótum að hlusta á rödd þeirra í þessu máli hvort sem það eru vinnuveitendur eða verkalýðshreyfingin. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur sem í stjórnmálum starfa að fá umfjöllun þeirra og skilaboð í þessu máli.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu og vænti þess að starf að þessu stóra hagsmunamáli okkar haldi áfram. Ég tel að þessi umræða hafi sýnt að við erum ekki í stakk búin til þess að veita endanleg svör um hvað íslenskri þjóð sé fyrir bestu á næstu árum eða áratug. Við þurfum að vinna betur í því máli og við þurfum að átta okkur betur á framtíðinni. Ég tel hins vegar ekki nauðsynlegt að við förum nú að leggja í þá vinnu að skilgreina eitthvað sem menn kalla samningsumboð og reyna að ná samstöðu um það (Gripið fram í: Samningsmarkmið.) eða samningsmarkmið. Það hefur ekkert upp á sig í þessu máli frekar en öðrum að við byrjum á því að semja við sjálfa okkur. Við verðum að átta okkur á því hvað við viljum og við verðum að átta okkur á því hverju við viljum ná fram. En að skilgreina samningsmarkmið og leggja þau fyrir þjóðina er ekki hægt að mínu mati. Ég tel og er sammála þeim sem hafa sagt það í þessari umræðu að málið liggi að langmestu leyti fyrir. Við vitum að langmestu leyti hvað bíður okkar. Við vitum það ekki að öllu leyti en við vitum það að mjög miklu leyti og þess vegna ættum við á næstu mánuðum eða árum að geta gert okkur nokkuð vel grein fyrir því hvað bíður okkar. Hins vegar þarf að leggja niðurstöðuna sem út úr því kæmi undir íslenska þjóð. Það er hún sem getur samþykkt eða hafnað þeirri niðurstöðu sem út úr því kemur. En ég tel út af fyrir sig að ekki þurfi að leggja mikla vinnu í það nú að skilgreina eitthvað sem menn kalla samningsmarkmið.