Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:01:03 (7003)

2000-05-08 15:01:03# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur misst öll tök á efnahagsmálunum sem hefur magnað upp skuldir heimilanna. Ég held að það sé alveg ljóst að ríkisstjórnin er klárlega með allt niður um sig í efnahagsmálum og sýnir lítt viðnám við verðbólgunni, en viðskiptahallinn stefnir í að hækka úr 43 milljörðum á liðnu ári í 50--60 milljarða á þessu ári. Verðbólgan hefur aukist um fjögur prósentustig á stuttum tíma en það jafngildir því að flatur tekjuskattur hafi verið hækkaður um 3% hjá einstaklingum með 150 þús. kr. í tekjur sem er auðvitað svívirðilegasta og grimmasta tegund skattahækkunar og kemur verst við þá sem höllustum fæti standa því þar er hvergi skjól í persónuafslætti. Gengi krónunnar hefur síðan verið keyrt upp með gífurlegum vaxtahækkunum Seðlabankans sem fjármálastofnanir hafa brugðist við með því að stórhækka vexti og þjónustugjöld á almenning í landinu. Óverðtryggðir skuldabréfavextir hafa hækkað um 4% á rúmu ári sem hækkað hefur greiðslubyrði af eins millj. kr. láni um 40 þús. kr. á ári. Á sama tíma er fyrirtækjum og stórum lántakendum þjónað af þessum sömu fjármálastofnunum á miklu lægri vöxtum en almenningur fær, þ.e. vöxtum sem taka mið af samkeppni við erlendar fjármálastofnanir, en almenningur borgar brúsann. Milljarðahagnaður bankanna á hverju ári er því borinn uppi af heimilunum í landinu, einstaklingunum, en ekki stórfyrirtækjunum en þeim þjónar ríkisstjórnin fyrst og fremst ásamt þeim sem geta leikið sér á verðbréfamarkaðnum. Heimilin hafa líka þurft að þola að fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi, en verðbreyting íbúða á höfuðborgarsvæðinu frá 1997 er um 37% þannig að ókleift er orðið fyrir ungt fólk að festa sér kaup á íbúð þar sem greiða þarf nálægt 2 millj. meira fyrir litla íbúð en áður.

Hækkun á fasteignaverði hefur átt drýgstan þátt í að keyra upp verðbólguna. Orsakanna er ekki síst að leita í breytingum á húsnæðiskerfinu, en greiðslumatið í húsbréfakerfinu miðast lítið við greiðslugetu heldur hve mikið hægt er að fá lánað í bankakerfinu enda hafa útlán bankanna til einstaklinga tvöfaldast frá árinu 1995 sem ýtt hefur undir þenslu og verðbólgu í þjóðfélaginu. Auk þess hefur mánaðarleg húsaleiga lágtekjufólks hækkað um tugi þúsunda á mánuði og á biðlistum eftir leiguhúsnæði eru nú nálægt 2.000 manns. En hæstv. félmrh. hefur líka staðið fyrir því að þrefalda vexti á leiguhúsnæði.

Áður en Framsfl. fékk það hlutskipti árið 1995 að þjónusta íhaldsöflin í landinu varð það helsta baráttumáls hans að ná niður skuldum heimilanna. En hver er staðan nú? Svört skýrsla Ráðgjafarstofu heimilanna sem er nýlega komin út endurspeglar gríðarlegar skuldir heimilanna og eru þær nú 513 milljarðar og hafa vaxið um 165 milljarða á föstu verðlagi frá 1995 eða um hvorki meira né minna en 46% í tíð ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þó að á móti sé tekið tillit til eignaaukningar heimilanna í bílum og húsnæði er skuldaaukning heimilanna á þessum tíma 91 milljarður kr. Er það einmitt athyglisvert að eignaaukning heimilanna, annars vegar á bílum og hins vegar á húsnæði, er álíka mikil á þessu fimm ára tímabili.

,,Greiðsluvandi er dauðans alvara.`` Þessi ummæli komu fram hjá forstöðumanni Ráðgjafarstofu heimilanna í nýrri ársskýrslu þeirra, en ríkisstjórnin lætur bara eins og allt sé í himnalagi. Þessi svarta skýrsla Ráðgjafarstofu heimilanna sýnir að bregðast þarf við með margvíslegum úrræðum og að úrræði ríkisstjórnarinnar frá 1996 sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir vegna fólks í greiðsluvanda sem koma átti í stað tillagna Samfylkingarinnar um greiðsluaðlögun, hafa ekki dugað. Ýmsar af þeim tillögum sem gerðar eru í skýrslunni má finna í þingmálum sem nú liggja fyrir Alþingi frá þingmönnum Samfylkingarinnar. Má þar nefna skattfrelsi húsaleigubóta, auknar barnabætur, gerð neyslustaðals, greiðsluaðlögun fyrir skuldug heimili, lagfæringu á réttarstöðu forsjárlausra foreldra og að endurskoðuð verði heimild til að draga af launum vegna skatta og meðlagsskulda þannig að tekið sé tillit til framfærsluþarfar heimilis.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er skoðun félmrh. á sívaxandi skuldum heimilanna ásamt mikilli vaxta- og fasteignaverðshækkun sem bitnað hefur með fullum þunga á heimilunum? Hvernig hyggst ráðherra bregðast við tillögu Ráðgjafarstofu heimilanna vegna mikils greiðsluvanda þeirra? Sérstaklega er spurt um hvort fjölgað verði úrræðum hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika heimilanna, hvort komið verði á samræmdum neyslustaðli og hvort skattlagning húsaleigubóta verði afnumin.