Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:06:21 (7004)

2000-05-08 15:06:21# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar ég kom í félmrn. 1995 og fór að eiga viðtöl við fólk sem kom með sín persónulegu erindi til mín sem ráðherra þá rann mér til rifja hvernig ástandið var hjá allt of mörgum. Fjöldi fólks var í vandræðum. Það hafði freistast til þess að taka greiðsluerfiðleikalán, selt húsbréf með allt að 25% afföllum og var nú komið í þrot. Suma skorti áþreifanlega yfirsýn yfir sín persónulegu fjármál og þá kviknaði hjá mér hugmyndin að setja á stofn Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Húsnæðisstofnun hafði að undanförnu veitt um 800 aðilum ráðgjöf á ári. Við komum á fót samvinnuverkefnum 14 aðila um Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Hún starfaði sem tilraunaverkefni í tvö ár, sannaði gildi sitt og síðan var þetta tilraunaverkefni framlengt.

Nú hafa um 2.000 manns fengið ókeypis leiðsögn hjá ráðgjafarstofunni. Gallup kannaði stöðu mála í úrtaki 400 manns af fyrstu 1200 viðskiptamönnum eða skjólstæðingum ráðgjafarstofunnar. 70% þeirra töldu sig hafa náð tökum á fjármálum sínum og ef við getum hjálpað 70% af þeim hópi sem verst eru settir á hverjum tíma þá er það stórkostlegur árangur. Ég tel einboðið að halda þessu verkefni áfram.

Umrædd skýrsla, ársskýrsla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, er nú sem betur fer ekki þverskurður af ástandinu í þjóðfélaginu en hún er skilagrein um stöðu 600 einstaklinga af þeim verst settu 1999. Það eru margar athyglisverðar upplýsingar í þessari skýrslu og athyglisverðar tillögur til úrbóta. 82% af þeim sem leita til ráðgjafarstofunnar eru á höfuðborgarsvæðinu og það virðist vera algengara að eyða um efni fram hér en úti á landi. 29% af þeim sem leituðu til ráðgjafarstofunnar eru með ráðstöfunartekjur undir 100 þús. á mánuði. Vanskilin eru mest hjá fólki með ráðstöfunartekjur 300--350 þús. á mánuði. Það er líka athyglisvert. Þetta er að vísu svo lítill hópur að svona greining er kannski tæplega marktæk. 40% þeirra sem leituðu til ráðgjafarstofunnar eru einstæðir foreldrar og ég mun beita mér fyrir sérstakri vinnu við að leita leiða til að bæta stöðu verst settu einstæðra foreldra því að ég tel að það sé óhjákvæmilegt.

54% af þessum einstæðu foreldrum eru án atvinnu. Þar af eru 29% öryrkjar. Þetta er að vísu ekki nema lítill hluti einstæðra foreldra, þ.e. um 240 manns af um 8--9 þús. manna hópi. Þær tillögur sem birtar eru í skýrslunni eru flestar góðra gjalda verðar og unnið er að því að hrinda sumum þeirra í framkvæmd. Ég vitna til reglugerðar um greiðsluvanda, nr. 225/1999, og það er endurskoðun ákvæðanna á fyrirkomulagi barnabóta. Fleira mætti telja af þeim tillögum sem við munum beita okkur fyrir og settar eru fram í skýrslunni.

Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af skuldastöðu heimilanna. Stórkostleg hækkun kaupmáttar leiðir til stóraukinnar eyðslu sem aftur leiðir til mikils viðskiptahalla. Þjóðflutningarnar innan lands eru mikill verðbólguhvati og þeir eru orsök 30% af verðbólguhækkun undanfarinna mánaða. Bensínhækkunin er um 20%.

Þrátt fyrir mikla bókfærða hækkun skulda hækka eignirnar líka. Inneignir í lífeyrissjóðum eru svipaðar og heildarskuldir heimilanna eða rétt rúmir 500 milljarðar. Hreinn sparnaður sem hlutfall af vergri landsframleiðslu vex úr 2,2% 1994 í 12,7% 1999 samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Hreinn sparnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna vex úr 2,4% 1994 í 23,8% 1999. Heimilunum gengur líka betur að standa í skilum við lánastofnanir og mun ég koma að því í seinni ræðu minni.