Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:14:13 (7006)

2000-05-08 15:14:13# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar hv. málshefjandi Jóhanna Sigurðardóttir var félmrh. og þjónustaði Sjálfstfl., svo notuð séu hennar eigin orð, voru teknar upp að hennar kröfu eignaviðmiðanir alls konar bóta, barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta. Þær skyldu ekki fá þeir sem eru eignafólk. Nú þegar fasteignaverð hækkar sem aldrei fyrr og skuldirnar hækka miklu minna þá verða margir eignamenn og samkvæmt þeim reglum sem hv. málshefjandi setti sjálf inn, fær þetta fólk ekki þessar bætur eða þær eru skertar vegna eignamyndunar sem verður vegna þess að fasteignaverð hækkar.

Herra forseti. Sú skýrsla sem við höfum rætt frá Ráðgjafarstofu heimilanna sýnir okkur að almenningur sýnir furðulegt fyrirhyggjuleysi. Allt of margir eru fyrirhyggjulausir. Þeir eru hissa þegar þeir lenda í áföllum vegna veikinda, slysa, dauðsfalla, skilnaðar, atvinnuleysis, vegna þess að bíllinn er klessukeyrður eða bara vegna óreglu. Fólk á almennt ekki sparifé enda er það þannig að allar reglur okkar hvetja menn til þess að skulda. Vaxtabæturnar hvetja menn til þess að skulda. Eignatenging bótanna hvetur menn til þess að skulda. Síðan eru eignarskattarnir sem refsa þeim sem spara. Allt þjóðfélagið gengur því út á það að hvetja menn til að skulda og spara ekki. Og ef það á að hvetja menn til að spara þá eiga þeir að spara endilega í lífeyrissparnaði en ekki í venjulegum sparnaði til þess að mæta hinum venjulegu áföllum daglegs lífs sem við öll verðum fyrir meira eða minna.