Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:16:20 (7007)

2000-05-08 15:16:20# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka upp skýrslu Ráðgjafarstofunnar um fjármál heimilanna því að hún er afar merkileg og í henni eru margar góðar tillögur sem vísa fram á veginn og eru til úrbóta fyrir þann stóra hóp sem á í fjárhagslegum vanda.

Fjármál um 2.000 heimila í landinu koma við sögu ráðgjafarstofunnar. Það lætur nærri að slíkur vandi snerti um 8.000 manns beint fyrir utan þá sem eru í tengslum við viðkomandi fjölskyldur. Við þekkjum öll uppáskriftarhefðina hjá okkur á Íslandi og er löngu tímabært að setja þá reglu í endurskoðun.

Meginvandi heimilanna er eftirfarandi: Tekjur eru ekki í samræmi við framfærslukostnað og fjárfesting er ekki í samræmi við greiðslugetu. En ekki er alltaf um neyslusukk að ræða, eins og oft vill brenna við í umræðunni og hv. þm. Pétur Blöndal kom aðeins að áðan, heldur er auðvitað líka ýmiss konar annar vandi sem ekki alltaf allir eru tilbúnir í þó að þingmaðurinn teldi það. Fyrir það fyrsta þá duga launin ekki til framfærslu. Síðan geta komið upp sjúkdómar og dauðsföll og skilnaðir og ýmsir aðrir félagslegir erfiðleikar í lífi fólks. Ég get tekið undir það að ekki er hefð fyrir miklum sparnaði hér á landi.

Afar farsælt samstarf hefur verið við Félagsþjónustuna í Reykjavík um þau einstaklingsmál sem þarna koma upp og eru um 32% þeirra sem leita til Ráðgjafarstofunnar þaðan og er yfirleitt farið í flestum tilfellum eftir þeim fjármálatillögum sem þar fram koma og hefur verið hægt að leysa mál margra einstaklinga sérstaklega farsællega.

Fjölmörg dæmi eru um að umsamdar mánaðarlegar afborganir lána nemi tvöfalt þeirri fjárhæð sem ráðstöfunartekjur heimilisins eru.

Einstæðir foreldrar eru nú stærsti einstaki hópurinn sem leitar til ráðgjafarstofunnar eða um 40% umsækjenda. Tillaga er um að útreikningur barnabóta verði endurskoðaður. Það mundi gagnast þessum hópi gríðarlega vel. Við skulum ekki gleyma þessu með húsaleigubæturnar. Þetta er sá hópur sem er líka eignalaus og það þarf að skoða það sérstaklega varðandi þann hóp.

Ég bendi líka á að tillaga framkvæmdastjórnar Ráðgjafarstofu heimilanna um neyslustaðal er í samræmi við tillögu þingmanna Samfylkingar um þau mál.