Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:21:09 (7009)

2000-05-08 15:21:09# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fyrir utan augljós hættumerki í efnahagsmálum, viðskiptahalla og verðbólgu sem blasað hefur við undanfarin missiri og margir hafa orðið til að benda á, þá hygg ég að það ískyggilegasta við þróunina sé vaxandi misskipting í samfélaginu. Skýrsla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna dregur það mjög skýrt fram. Staðan versnar hjá verst setta hópnum í samfélaginu. Það dregur í sundur og örbirgðin vex þar sem hún var ærin fyrir.

Síðan kemur hér hv. þm. Pétur Blöndal og talar um að almenningur sýni ótrúlegt fyrirhyggjuleysi. Það er örugglega víða fyrirhyggjuleysið. En ég held því fram, herra forseti, að staða einstæðra foreldra t.d. sem eru stærsti einstaki hópurinn sem leitar til Ráðgjafarstofu heimilanna, eigi í flestum tilvikum ekkert skylt við fyrirhyggju eða fyrirhyggjuleysi. Þetta er ósköp einfaldlega fólk sem nær ekki endum saman. Munurinn sem þar er á milli útgjalda og tekna vex, skuldirnar aukast og staðan versnar. Það er því ekki þetta fólk, herra forseti, það eru ekki einstæðar mæður, það eru ekki öryrkjar og fjölskyldur þeirra eða sá hluti aldraðra sem ekkert hefur nema opinberu tryggingabæturnar, sem er hið efnhagslega vandamál á Íslandi. Það er ekki þetta fólk sem ber aðal\-ábyrgðina á viðskiptahallanum, er að kaupa stóra jeppa eða aðra slíka hluti þúsundum saman.

Það er að drepa umræðunni á dreif að draga slíka hluti inn í málin þegar við erum að ræða það sem ég lít svo á að sé hér til umræðu, þ.e. stöðu verst setta hópsins í samfélaginu sem fyrst og fremst eru viðskiptavinir þessarar ráðgjafarstofu. Skýrslan sýnir að hún er að versna mitt í sjálfu góðæri Davíðs Oddssonar og félaga og það er auðvitað hlutur sem menn ættu að taka alvarlegar en mér finnst ráðamenn og aðstandendur ríkisstjórnarinnar hér gera.