Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:38:57 (7017)

2000-05-08 15:38:57# 125. lþ. 107.2 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög óskynsamlegt að Alþingi heimili við þessar aðstæður að falla frá svonefndum stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/1999, en hún gengur út frá að taka inn í EES-réttinn tilskipun Evrópusambandsins nr. 96/92, um innri markað fyrir raforku.

Ísland, sem er einangrað og án nokkurra tengsla við raforkumarkað Evrópu, á ekkert erindi inn í hinn sameiginlega raforkumarkað meginlandsríkja Evrópu. Tilskipun gengur m.a. út á að auðvelda viðskipti með raforku milli landa sem á ekki við í tilviki Íslands. Auk þess er málið enn illa undirbúið og nánast á frumstigi á Íslandi og ekkert liggur fyrir um mjög margar stórar og vandasamar ákvarðanir sem þarf að taka um breytingar í orkumálum okkar áður en við getum uppfyllt ákvarðanir þessarar tilskipunar.

Ég legg því til að menn samþykki þá skynsamlegu tillögu að vísa þessari tilskipun til ríkisstjórnarinnar og fela henni að leita eftir betri lausn fyrir Ísland en þá að neyðast til að taka upp þessa tilskipun.