Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:29:05 (7024)

2000-05-08 16:29:05# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar langar mig að koma inn á orð hans um að ég gerði ráð fyrir því að valdið flyttist frá stéttarfélögum til félagsfundar, þ.e. félagsfundir kysu stjórn í staðinn fyrir tilnefningu stéttarfélaga. Þetta er ekki nema hálfur sannleikurinn vegna þess að stéttarfélögin tilnefna ekki nema helminginn af stjórnarmönnum. Hinn helmingurinn er yfirleitt tilnefndur af atvinnurekendum sem sjóðfélagar hafa ekkert með að gera, nema að þeir starfa hjá þeim. Þetta mundi þannig flytja valdið frá stéttarfélögum og atvinnurekendum til félagsfunda sjóðfélaga.

Nú geta menn náttúrlega haft mismunandi skoðun á því hvort sjóðfélagar séu færir um að nýta lýðréttindi sín og kjósa stjórn. Ég verð mjög mikið var við að menn efast um að sjóðfélaginn sé fær um þetta. Það eru mjög margir sem vilja taka að sér þetta hlutverk hans, að kjósa í stjórn. Ég hef aftur á móti fulla trú á því að Íslendingar geti kosið sér stjórnir í lífeyrissjóðum sínum. Ég hef fulla trú á því að þeir sem eiga allt undir því að stjórnin starfi rétt mæti á félagsfund og kjósi sér stjórn. Þetta sjáum við hjá einstaka stéttarfélögum. Ég nefni Sjómannafélagið. Ég hygg að þátttakan þar sé mjög almenn í kosningum sem reyndar eru yfirleitt bréfakosningar. Þetta mætti gera nákvæmlega eins með lífeyrissjóðina. Kosningin færi fram með bréfakosningu og jafnvel á netinu. Það væri hægt að fara þá leið. Ég sé ekkert að því að stéttarfélögin tilnefndu menn í framboð. Það væri allt í lagi en þar mættu líka aðrir koma að sem yrði þá kosið á milli. En þegar mikið liggur við gæti sjóðfélaginn haft bein áhrif á það hverjir eru kosnir í stjórn. Það er aðalatriðið.

Ég hef sem sagt meiri trú á félagsmönnum stéttarfélaganna heldur en forsvarsmenn þeirra, á að þeir séu færir um að nýta sér lýðræðisleg réttindi sín til að kjósa.

[16:30]

Hv. þm. sagði enn fremur að lífeyrissjóðakerfið væri afrakstur af baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil gera mikla athugasemd við þessa söguskýringu. Fyrsti lífeyrissjóður í landinu var stofnaður 1920 og var lífeyrissjóður embættismanna. Það komu engin stéttarfélög að því. Næstu lífeyrissjóðir voru Lífeyrissjóður KEA og Lífeyrissjóður Sjóvár þar sem fyrirtækin komu að því að tryggja starfsmenn sína. Þar á meðal var Vilhjálmur Þór sem gaf stóra upphæð á þeirrar tíðar mælikvarða, 2.500 kr., til að stofna Lífeyrissjóð KEA. Þetta var félagsleg hreyfing hjá stjórnendum fyrirtækja á þeim tíma, 1930--1934. Síðan er Lífeyrissjóður verslunarmanna stofnaður af VR sem nokkru áður hafði verið félag atvinnurekenda og launþega. Árið 1956 er sá sjóður stofnaður.

Það er ekki fyrr en í samningum 1969 að hinir almennu lífeyrissjóðir eru stofnaðir og þá að frumkvæði Eðvarðs Sigurðssonar sem sagði að hann vildi gefa hinum almenna verkamanni kost á því að fá lán, ekki lífeyri. Aðalhvatinn að stofnun lífeyrissjóðanna á þeim tíma var ekki lífeyrishlutverkið heldur lánahlutverkið, enda voru lífeyrissjóðirnir mjög sterkir í því að lána beint til sjóðfélaga. Það gekk ekki að fá fólk til að ganga í lífeyrissjóðina á þeim tíma, 1969 og 1970. Það gekk ekki neitt. Hvað gerðu menn þá? Þá, 1974, var lögfest ein furðulegasta lagasetning í öllum heiminum, þar sem hið háa Alþingi samþykkti lög sem segja að öllum sé rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Ekkert meir. Ekkert ákvæði um það hvort sjóðirnir gætu borgað lífeyri. Ekkert var um það hvernig reglum um þá yrði háttað. Ekkert var um það að hafa eftirlit með þessum sjóðum, ekkert. Það var bara þessi eina setning. Þannig var þetta mjög lengi og þá fyrst þegar lífeyrissjóðirnir gátu með lögfræðingum sótt iðgjöldin inn í fyrirtækin, fór að fjölga í lífeyrissjóðunum, en ekki fyrr. Það er sem sagt löggjafinn sem á mestan hlut í því hvað lífeyrissjóðakerfið hefur vaxið.

Sú brtt. sem ég flyt er ekki alveg út í bláinn. Eignir lífeyrissjóðanna eru feiknarlega miklar, 550 þús. millj. kr. og ráðstöfunarféð er feiknarmikið. Ætli það sé ekki nálægt 140 þúsund millj. kr. á ári. Það er frjáls ráðstöfun. Það er ekki ráðstöfun eins og hjá Alþingi þar sem allt er meira og minna niðurnjörvað. Nei, þetta er nokkurn veginn frjáls ráðstöfun þannig að vald sjóðstjórna er mjög mikið. Þær eru að kaupa hlutabréf alla daga og þeim fylgja ítök í hlutafélögunum. Sem dæmi má nefna að verðmæti stærstu hlutafélaga á landinu eru svona 20--40 milljarðar en lífeyrissjóðirnir ráðstafa 140 milljörðum á ári. Hvert einasta ár. Þeir gætu keypt upp landið og miðin á mjög stuttum tíma og eru kannski að því, enda sér maður þegar maður lítur á eigendalista hlutafélaga að þar tróna lífeyrissjóðirnir yfirleitt efstir á blaði, samanber hina nýstofnuðu banka sem ríkið hefur verið að selja. Það eru lífeyrissjóðirnir sem hafa aðallega keypt þá.

Þetta er mikið vald. Þetta er mikil eign og ég tel það mjög brýnt, þjóðhagslega brýnt, að sjóðfélagarnir komi að þessu valdi, að eigandinn komi að þessari eign sinni og viti a.m.k. af henni þó ekki væri annað. Ég hygg að eftir svona 20--30 ár með svipaðri þróun þegar lífeyrissjóðirnir verða komnir upp í eign sem er 800--1.000 milljarðar, þ.e. milljón milljónir, sem verður þá hámarkið --- þá fer aftur að draga úr, þá fara lífeyrisgreiðslurnar að taka meiri toll --- þá verði vald lífeyrissjóðanna og ítök í atvinnulífinu orðin þvílík að menn mundu hafa viljað sjá slíka lagasetningu miklu fyrr til að eigandinn venjist því að kjósa sér stjórn og hafa áhrif á hverjir fara með fé hans.

Stjórnir sjóðanna eru að ráðstafa þessu mikla fé á hverjum einasta degi innan lands og erlendis. Ég ætla að vona að þeir beri gæfu til að ráðstafa þeim peningum rétt þannig að ekki tapist því það er mikil áhætta fólgin í því að ráðstafa fé. Svo að maður tali nú ekki um þegar féð er orðið svona mikið. Þegar vandkvæði eru orðin á að finna góða fjárfestingarkosti aukast líkurnar á því að menn geri mistök. Þess vegna finnst mér mjög brýnt að eigandi fjárins, sjóðfélaginn, komi að þessu fé sínu því að í mínum huga á sjóðfélaginn lífeyrissjóðinn. Hann á þetta fé sem stendur á móti réttindum hans.

Þá flyt ég hér tillögu um að gefa fólki upplýsingar um verðmæti réttindanna. Það er akkúrat sá hlutur sem viðkomandi sjóðfélagi á í eignum sjóðanna því að eignirnar eiga að standa á móti öllum réttindum, eða verðmæti réttindanna, og þau eru reiknuð út á hverju einasta ári fyrir hvern einasta sjóðfélaga. Þetta er því allt þekkt. Ef eignirnar standast á við verðmæti réttinda hvers einstaks sjóðfélaga er þetta akkúrat sá hlutur sem maðurinn á í eignum sjóðsins og sem stjórnin er að ráðstafa fyrir hans hönd. Þetta er í rauninni fjöregg hans því að þetta á að standa undir lífeyrisréttindum hans í ellinni. Þess vegna tel ég mjög brýnt að sjóðfélaginn komi sem eigandi að þessu fé og kjósi sér stjórn beint og ég treysti honum fullkomlega til þess.