Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:40:06 (7026)

2000-05-08 16:40:06# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hér er aftur spurning um trú á dómgreind einstaklingsins. Ég trúi því að einstaklingurinn geti vel skilið að verðmæti ellilífeyrisréttinda hans séu t.d. 10 millj. og þau verðmæti falli niður þegar hann fellur frá. Þetta held ég að allir geti skilið, hver og einn einasti maður. Það er líka hægt að segja að verðmæti örorkulífeyris rétthafans, þó að hann sé ekki öryrki, sé svo og svo mikið og komi til ef hann verði öryrki. Þetta held ég að allir geti skilið eða velflestir.

Makalífeyrisrétturinn t.d. hjá þingmönnum. Ef hér kemur inn nýr þingmaður þá á makinn rétt á 20% af þingfararkaupi. Þetta eru ákveðin verðmæti sem makinn á og ég held að fólkið skilji það fullkomlega að ef makinn fellur frá, segjum áður en hann hefur töku lífeyris, þá falla þessi réttindi úr gildi. Þetta er nákvæmlega eins og að þeir skilja það fullkomlega sem eiga hlutabréf í Eimskip að þeir eiga enga kröfu á arði. Hann fellur bara til ef félagið skilar hagnaði. Ég hef miklu meiri trú á almenningi. Hann er miklu gleggri en hv. þm. gerir ráð fyrir í ræðu sinni.