Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:50:05 (7030)

2000-05-08 16:50:05# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um þetta kerfi. Hún hefur staðið vörð um sína eigin hagsmuni.

Málið gekk út á það hvort veita mætti fólki val, hvort fólk mætti velja á milli lífeyrissjóða. Það hefði sko veitt stjórnum sjóðanna aldeilis aðhald. Nei, það mátti ekki. Verkalýðshreyfingin stóð í hörkubaráttu heilt sumar við að fá það út og henni tókst að fá inn að fólk yrði áfram skyldað til að borga inn í einn ákveðinn lífeyrissjóð til þess að stjórnin þurfi nú ekkert að óttast að menn færu í annan lífeyrissjóð ef hún stæði sig ekki. Þetta er varnarbarátta verkalýðshreyfingarinnar.

Varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þá skilaði varnarbarátta þess verkalýðsfélags því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins skilaði 42 milljörðum í aukningu á skuldbindingum 1998. Skuldbindingar sjóðsins jukust um 42 milljarða. Þökk sé verkalýðshreyfingunni sem stóð á bak við það. Það þýðir að skuldbindingarnar jukust um 2 milljónir á hvern einasta starfandi ríkisstarfsmann, þ.e. sem ríkið skuldaði þessu fólki meira í árslok 1998 en í ársbyrjun.

Varðandi iðgjaldið í A-deild LSR þá var það þannig að sjóðfélagar borga 4% hvað sem á dynur. Ríkissjóður borgar breytilegt iðgjald eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Ef vextir lækka verður iðgjald ríkissjóðs himinhátt og skattgreiðendur borga það sem kunnugt er.