Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:27:14 (7039)

2000-05-08 17:27:14# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess og fagna því að það nái fram að ganga. Ég tel að þetta frv. eða þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér á reglum um fæðingarorlof og upptöku ákvæða um foreldraorlof í löggjöfina, þjóni tveimur mjög mikilvægum markmiðum. Það fyrra lýtur að fjölskyldunni og rétti barna til samvista við foreldra og rétti foreldra til samvista við barn sitt á fyrstu mánuðum og missirum eftir fæðingu, seinna markmiðið er það sem snýr að jafnréttismálum eða jafnrétti kynjanna. Enginn vafi er á því að sjálfstæður óyfirfæranlegur réttur feðra er mjög mikilvægt innlegg í það mál að jafna stöðu kynjanna, einkum á vinnumarkaði, því þar liggur óhrekjanlega fyrir í gegnum fjölda kannana að ekki síst þetta atriði hefur verið konum mótdrægt, að þær hafa goldið í mun ríkari mæli en menn fyrir það að vera fjarri vinnu vegna ekki bara meðgöngu og fæðingar barns heldur síðan umönnunar þess á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu.

Nú má binda vonir við að þetta jafni nokkuð þá stöðu á vinnumarkaði og hefur auk þess að sjálfsögðu í sér fólgið mikið uppeldislegt gildi ef svo má að orði komast og skírskotun til þess að báðir foreldrar og bæði kyn eigi þarna að koma að málum með sambærilegum hætti.

Að öðru leyti, herra forseti, get ég fyrst og fremst vísað í ræðu sem ég hélt við 1. umr. málsins og þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði þar. Félmn. valdi þá leið, sem ég hygg að hafi verið skynsamleg miðað við aðstæður sem okkur voru boðnar til að vinna að þessu máli sem var mjög skammur tími, að fara ekki út í að gera breytingar heldur fjalla um ýmis álitamál í nál. eins og gerð var ágætlega grein fyrir áðan af formanni nefndarinnar.

Það eru aðeins nokkur atriði í því sambandi sem ég vildi fyrir mitt leyti leggja áherslu á sem ég tel skipta miklu máli og komið er inn á í greinargerðinni. Þannig er frá þessu gengið af okkar hálfu að það er í trausti þess að þeir hlutir sem þar koma fram verði skoðaðir og hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi það sérstaklega í huga að félmn. er að velja þessa leið til að greiða götu málsins að taka upp umfjöllun um ýmis álitamál í nál. fremur en að fara í að gera þar brtt. og jafnvel með þeim hætti stofna framgangi málsins í óvissu á þeim skamma tíma sem eftir lifir af þingstörfunum.

[17:30]

Það fyrsta sem ég vil nefna og hefur áður borið á góma snýr að stöðu einstæðra foreldra í vissum afmörkuðum tilvikum. Við teljum mjög mikilvægt að það atriði verði skoðað og komi í ljós jaðartilvik eða aðstæður þar sem réttur, fyrst og fremst barnsins eða eftir atvikum uppalenda þess, er fyrir borð borinn þá beri að líta til þess ef mögulegt er innan úrræða þeirra ákvæða sem lögin geyma og ef ekki þá með breytingu til að taka inn heimildir sem þá væru til staðar í lögunum og mætti grípa til.

Mér er sjálfum nokkuð hugleikin sú framsetning málsins að í raun sé réttinum jafndeilt á milli föður og móður í þeim skilningi að hvor aðili um sig hafi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða og síðan sé sameiginlegt þriggja mánaða tímabil til töku fæðingarorlofs. Það má vissulega velta því fyrir sér og ég nefndi það í ræðu minni við 1. umr. hvort þetta fullkomna jafnræði sé jafnvel keypt um of á kostnað sérstöðu móðurinnar í þessu sambandi sem er auðvitað fyrir hendi og einkum er maður með í huga fyrstu vikur og jafnvel mánuði í æviskeiði barnsins. Eftir stendur aðeins hálfs mánaðar tími sem er bundinn móðurinni í beinum skilningi á fyrsta æviskeiði barnsins.

Það kann vel að vera að á síðari stigum og ef það verður raunin að feður nýti almennt til fulls þennan rétt sinn og það andrúmslofti komist á eða sá tíðarandi, hvað sem við eigum að kalla það, herra forseti, verði ríkjandi, þá hætti það að skipta máli hvernig er gengið nákvæmlega frá bindingu af þessu tagi í lögum. Ég óttast að það sé nokkuð langt í land, að ekki sé þörf á einhverjum umtalsverðum sjálfstæðum og óyfirfæranlegum rétti feðra, eigi ekki að sækja í sama farið á nýjan leik og það verða til þess að veikja stöðu kvenna á vinnumarkaði. En þetta mál er að sjálfsögðu eðlilegt eins og svo margt annað að skoða í ljósi reynslunnar og eftir því hvernig mál þróast.

Í þriðja lagi vil ég nefna þann þröskuld sem er í reynd innibyggður í frv. eða verður í lögin hvað það snertir að töku fæðingarorlofs er ekki hægt að dreifa á lengri tíma en fram að 18 mánaða aldri barnsins. Ég teldi æskilegt að þarna væri meira svigrúm þannig að í reynd gæti fæðingarorlofstakan orðið mjög sveigjanleg og foreldrar gætu þess vegna hafið störf tiltölulega fljótt í lægra starfshlutfalli og hækkað það síðan í áföngum og geymt einhvern hluta launaðs fæðingarorlofs jafnvel fram á að þriggja, fjögurra ára aldrei barns og þá tæki við sá réttur til ólaunaðs foreldraorlofs sem við bætist. Svona er þessu sums staðar fyrir komið. Ég nefndi sem dæmi Svíþjóð og get endurtekið það en þar er hægt að geyma síðari hluta af allt að eins árs fæðingarorlofi til allt að sjö ára aldurs barns.

Þetta skiptir máli, herra forseti, í sambandi við það hvernig þetta frv. og sú framför sem tvímælalaust er í því fólgin nýtist í sambandi við það að skapa eitthvað fjölskylduvænna andrúmsloft á vinnumarkaði og meiri sveigjanleika og meiri möguleika foreldra til að laga þátttöku sína úti á vinnumarkaðnum að fjölskylduaðstæðum.

Að síðustu vil ég nefna, herra forseti, að margt mælir með því að þessi löggjöf verði tekin tiltölulega fljótlega til endurskoðunar því að verið er að setja inn ýmis nýmæli og sum þeirra vissulega þannig að deila má um bæði útfærslu og frágang. Þess vegna er það niðurstaða okkar að heppilegt væri að stefna að því að taka lögin til heildarendurskoðunar um það bil sem þau verða, með gildistökuákvæðunum eins og þau eru úr garði gerð, að fullu komin til framkvæmda, þ.e. á árinu 2003 eða þar um bil. Það held ég að væri skynsamlegt að hafa sem viðmiðun strax frá upphafi.

Herra forseti. Ekki fleiri orð af minni hálfu. Ég endurtek að ég fagna þessu frv. og það er gleðilegt að einstöku sinnum gerist það nú, þó allt of sjaldan, að við á Alþingi fjöllum um breytingar sem horfa til heilla eða framfara í velferðarmálum okkar. Ég hygg að ekki sé miklu hallað þó að sagt sé að því miður hafi sá áratugur sem nú er senn á enda fyrst og fremst einkennst af undanhaldi í velferðarmálum og breytingar á löggjöf og breytingar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og annað slíkt hafa langoftast falið í sér skerðingar og niðurskurð og breytingar til hins verra á okkar grundvallarvelferðarkerfi en hér er þó að einu leyti brotið í blað og það er gleðilegt. Því fagna ég og styð þetta mál heils hugar.