Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:37:06 (7040)

2000-05-08 17:37:06# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir sem á undan mér hafa talað að fagna því frv. um fæðingar- og foreldraorlof sem hér liggur fyrir nál. um. Ég sagði það líka í fyrri umræðu og það hefur verið áréttað að það hefur verið afgreitt með miklum hraða en við sammæltumst um að vera ekki með brtt. við frv. til þess að ekkert kæmi í veg fyrir að tefja það og gera það þannig að hnykkja á málum í nál. Það er líka mjög mikilvægt að þessi sjóður fari af stað núna um leið og frv. er samþykkt.

Það sem ég vildi koma inn á í nál. var gert og það var þetta sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon lýsti áðan. Það er um þau jaðartilfelli varðandi einstæða foreldra sem ég gerði að meginumtalsefni í fyrri umræðu þar sem það eru fleiri tilfelli en þegar um látinn barnsföður er að ræða. Það geta verið tilfelli sem þarf að skoða og þess vegna er úrskurðarnefndin mjög mikilvæg.

Það er líka hnykkt á endurskoðuninni í nál. og það er gríðarlega mikilvægt og eins þurfum við líka að skoða að þessu loknu hvernig hinn nýi faðir hefur nýtt sér þennan rétt. Auðvitað er það svo og ég vona það innilega að hin nýja kynslóð karlmanna muni nýta sér þennan rétt í ríkari mæli en við höfum séð. Foreldraorlofið er gríðarlega góð viðbót og er ein af tilskipunum Evrópusambandsins og er mjög vel við hæfi að þetta skuli allt saman tengjast saman núna. Við fengum til okkar mjög stóran hóp gesta og það urðu mjög skemmtilegar umræður á þeim fundi og það bjargaði náttúrlega því að við vorum að ræða við hóp sem þekkir vel til málanna. Hvergi var komið að tómum kofanum enda hefur þetta mál verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar lengi.

Hins vegar urðu mjög skemmtilegar umræður um möguleika á misnotkun á þessu kerfi. Við ræddum um að konum hefði aldrei dottið í hug að misnota fæðingarorlof. Það hefur verið talað um að ef það væri einhvers staðar misnotkun þá væri það í einhverjum hlutastörfum þar sem konur hafa lægstar bætur og ná kannski að fá hálft fæðingarorlof þannig að það er það mesta sem konur hafa komist í þeirri misnotkun. Það kom upp hugmynd um að faðir mundi skrá sig í fæðingarorlof, taka það, ráða til sín konu heim fyrir 100 þús. kr. á mánuði og fara svo í verkefni fyrir álíka upphæð og hann fengi annars í laun þannig að þar með næði hann tvöföldum launum þennan tíma. Það var dálítið hlegið að því af því að ég held að það hafi aldrei hvarflað að konum að hægt væri að misnota þetta á þennan hátt en auðvitað verður þetta ekki svo. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því þannig að mér finnst líka eins og ég lagði áherslu á í fyrri umræðu að við þurfum alltaf að gæta okkur á því að setja fókusinn ekki á það hvað er misnotað heldur líka hvað er gott.

Þetta er stórt skref í jafnréttisátt og komið að þeim tímapunkti að karlmenn eigi að hafa þennan rétt og auðvitað sjáum við líka framtíðina þannig að fæðingarorlofið verði lengt smátt og smátt. Það má líka sjá eftir að þessu þriggja ára tímabili lýkur og endurskoðun hefur farið fram að komi tímabil sem hægt er að vera með þriggja mánaða viðbót þannig að við kannski sjáum kannski innan sex, átta ára fæðingarorlof í eitt ár í heildina. En það var enginn ágreiningur í nefndinni um þetta mál og enginn fyrirvari og við fengum inn í nál. það sem allir töldu mjög mikilvægt að yrði skoðað á meðan þessi tími er að líða. Það var mjög ánægjulegt að vinna að málinu þó að við hefðum gjarnan viljað hafa meiri tíma.