Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:54:42 (7044)

2000-05-08 17:54:42# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög góðar ræður hjá hv. þm. Ég hvet hann til að flytja þær sem oftast og endilega á réttum stöðum, t.d. í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Ég er hjartanlega sammála því að staðan er mjög brothætt. Skuldir heimilanna eru ískyggilegar og hjá útflutningsatvinnugreinunum hefur verið að þyngjast fyrir fæti. Það leiðir af sjálfu með hækkandi raungengi og vaxandi tilkostnaði, umtalsvert meiri verðbólgu hér heldur en í samkeppnislöndunum o.s.frv. Allt ber að sama brunni.

Varðandi þetta litla frv. ber á það að líta að það kemur sparnaður á móti. Það verður samfélagslegur sparnaður. Ég get viðurkennt að að einhverju leyti verði tilfærsla yfir á atvinnulífið en þannig munu t.d. sveitarfélög og fleiri aðilar spara á móti. Þetta jafnar byrðunum af fæðingarorlofi betur á allar greinar atvinnulífsins en núverandi fyrirkomulag hefur gert. Þar sem konur hafa verið hlutfallslega flestar í störfum hafa þessar byrðar hvílt þyngra. Þetta fyrirkomulag, með sameiginlegan sjóð, jafnar þetta betur út og hefur marga kosti í sér fólgna.

Varðandi samkeppnisskilyrðin þá verðum við líka að hafa það í huga að fæðingarorlofsréttur hefur hér verið mun minni en í mörgum nálægum löndum. Að því leyti höfum við, í þeim skilningi, notið forskots sem núna er að hverfa. Er hægt að segja að það sé ósanngjarnt að við leggjum svipaðar byrðar á okkar atvinnulíf eða samfélag eins og gert er í okkar helstu samkeppnislöndum hvað þetta snertir? Launatengdur kostnaður atvinnulífsins hér er eftir sem áður einn sá lægsti innan OECD eins og ég veit að hv. þm. þekkir. Ég held að við séum ekki að bera niður að öllu leyti á réttum stað með því að gera þetta að áhyggjuefni í samhengi efnahagsmálanna. Hitt er ljóst að þar er ástæða til að hafa áhyggjur. Um það er ég hjartanlega sammála hv. þm.