Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 17:56:41 (7045)

2000-05-08 17:56:41# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég flyt náttúrlega ræður mínar úr þessu púlti eins og aðrir þingmenn. Það er hinn rétti staður þannig að ábendingar um að ég eigi að flytja þær annars staðar eru ekki raunhæfar. Hins vegar er það eins með mig og ég ætla með hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, að hann flytur ekki ræður sínar í þingflokki sínum. Það er ekki til siðs og þannig er jafnræði milli okkar.

Tryggingagjaldið, sem er í eðli sínu bara flatur tekjuskattur, virkar beint á framleiðsluna. Ég ætla að minna á það þegar Schlüter lenti í hinum mestu hremmingum með danskan iðnað og danskan landbúnað og danska samkeppni í ESB. Hvað gerði hann í örvæntingu sinni til að halda uppi samkeppni og verja dönsku krónuna? Hann fór gegn ESB og braut niður allar reglur þeirra. Hann endaði með því að taka öll tryggingagjöldin út til að búa til rými fyrir danska framleiðslu til þess að verja dönsku krónuna. Hann komst upp með það. Þó allir mótmæltu vissu þeir að hann var að verja Danmörku. Hann var að verja danska hagsmuni og komst upp með það. Þetta var aðferðin sem hann notaði. Þetta virkaði fyrir framleiðsluna.

Ég vil svo líka taka fram, herra forseti, að ég er alls ekkert á móti fæðingarorlofi. Ég er alls ekki á móti því að feður taki þátt í því með konum sínum og barnsmæðrum, alls ekki. Það er hið besta mál. En við skulum þá gera það upp við okkur, vera sjálfum okkur samkvæm þegar við samþykkjum það og viljum ganga þannig fram, að segja hver á að borga og hvernig. Við verðum að átta okkur á því að það eru tvær hliðar á hverjum peningi. Það á bæði að úthluta gæðunum og borga þau. Að koma núna á vordögum með gæðafrv. sem allir eru sammála um af því að það er svo gott --- ég er sammála því --- en sleppa því í leiðinni að segja hver eigi að borga, það gengur ekki.