Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:36:13 (7055)

2000-05-08 18:36:13# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki út í neinar hártoganir um orðanotkun, leikskóli eða barnaheimili. Þetta heitir víst leikskóli og ég skal alveg fallast á það. Hins vegar tel ég að átta mánaða barn sé ekki mikið í skóla og læri ekki neina býsn sem það geti ekki alveg eins lært heima hjá sér.

Við erum að tala um börn sem eru mjög ung. Við erum að tala um börn undir þriggja ára aldri. Ég er að tala um þann aldur og mín reynsla af barnauppeldi er sú að á þeim aldri vilji börnin vera heima. Það er bara þannig. Þau vilja læra það sem þau læra af foreldrum sínum, læra að tala og annað slíkt. Ég held að foreldrarnir séu ekkert síður færir um að kenna börnunum að tala og annað sem þau læra undir þriggja ára aldri. Hins vegar fellst ég á það með hv. þm. að þegar börnin eru eldri, kannski þriggja til sex ára, geti þau lært heilmikið í leikskólum en ég var ekki að tala um það.