Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:40:46 (7058)

2000-05-08 18:40:46# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að í Evrópu eru tugir milljóna atvinnulausir. Það er meiri háttar vandamál og meiri háttar mannlegur harmleikur hjá því fólki. Þetta er vegna þess að menn hafa sett álögur á atvinnulífið, margs konar álögur en kannski sérstaklega álögur sem ekki eru fjárhagslegar.

Ég hef alltaf sagt að það er aðall íslensks atvinnulífs hvað það er í raun spretthart og hvað álögur á það eru þó litlar miðað við það sem er í Evrópu. Þá á ég við uppsagnarfresti og alls konar slíka hluti. Hins vegar tel ég að þegar þjóðfélag nýtir ekki alla þá krafta sem eru í þjóðfélaginu, t.d. með því misrétti sem birtist í launamisrétti karla og kvenna sem segir mér að atvinnulífið nýti ekki konur eins og karla, þá kostar það líka lifandis býsn. Takist að minnka þetta misrétti á milli karla og kvenna, og kannski líka milli fólks almennt, þá næst fram sú arðsemi sem borga mun þennan kostnað. Barnauppeldi er hvort sem er alltaf greitt af einhverjum og hvort sem það er gert í þessu formi eða öðru breytir ekki miklu. Í þeirri stöðu sem við erum í í dag þar sem er mikil eftirspurn eftir vinnuafli, meira að segja umfram framboðið, þá tel ég að þetta sé krafa um að menn hagræði enn frekar í vinnutilhögun.