Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 19:30:26 (7069)

2000-05-08 19:30:26# 125. lþ. 108.9 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[19:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði ýmsa fyrirvara gagnvart þessu frv. eins og það var borið fram en ég tel að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. eða eru öllu heldur lagðar til af félmn. standi það mjög til bóta og eigi að geta orðið allgott. Ég stend því að nál. félmn. án fyrirvara.

Í þessu frv. eru, sem eðlilegt má telja þar sem í hlut eiga lög sem eru nokkuð komin til ára sinna miðað við þróun þessara mála, ýmis ákvæði sem horfa til réttrar áttar og taka upp nýmæli sem þykir nú sjálfsagt að hafa í lögum af þessu tagi. Ég hygg að hvernig sem það hefði borið að hefðu menn væntanlega glímt við að setja inn í löggjöf af þessu tagi hluti eins og til að mynda þá að stefna að því að auðvelda fólki samræmingu fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku eða ákvæði eins og þau sem frv. geymir einnig að reyna að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustað, í skólum eða annars staðar þar sem slíkt getur hent.

Af þeim breytingum, herra forseti, sem lagðar eru til við frv. af hálfu félmn. vil ég aðeins nefna fáeinar sem ég tel mikilvægar og gera það að verkum að ég treysti mér til að styðja frv. án fyrirvara. Ég vil í fyrsta lagi nefna stöðu Skrifstofu jafnréttismála, sem heitir svo í frv., en lagt er til að hún breyti um nafn og verði kölluð Jafnréttisstofa. En einnig eru gerðar, að vísu smávægilegar, breytingar á stöðu hennar sem ég tel þó miða í þá átt að gera hana sjálfstæðari og öflugri sem stjórnsýslu- eða framkvæmdastofnun á þessu sviði.

Ég tel í öðru lagi kannski þýðingarmest af öllu að samkomulag tókst í nefndinni um að leggja til að málshöfðunarréttur yrði áfram til staðar í þessu kerfi og nú þannig að í stað þess að áfrýjunarnefnd eða kærunefnd jafnréttismála hefur áður haft slíkan rétt þá færist hann til Jafnréttisstofu sem geti höfðað mál, eins og þar segir í brtt., með leyfi forseta:

,,... til viðurkenningar á rétti kæranda á grundvelli álitsgerða kærunefndar jafnréttismála ...``

Og þegar í hlut eiga mál sem eru þess eðlis að hagsmunir kærenda eru metnir miklir eða mikilvægt að fá úrlausn vegna fordæmisgildis málsins.

Herra forseti. Ég held að það hefði verið skref aftur á bak og það hefði tekið bitið úr löggjöfinni ef málshöfðunarrétturinn hefði horfið með öllu út. Ég fagna því mjög þessari breytingu og tel hana þá mikilsverðustu sem samstaða varð um að gera.

Einnig er lögð til nokkur breyting á skipan Jafnréttisráðs sem ég get fellt mig prýðilega við. Þar er lagt til að fjölga í nefndinni um tvo fulltrúa. Ég tel reyndar sérstaklega mikilvægt að Samband ísl. sveitarfélaga fái þarna fulltrúa. Það væri í raun á skjön við mikilvægi sveitarfélaganna sem bæði vinnuveitenda og eins stjórnsýslustigs ef þau ættu ekki beina aðild að framkvæmd eða stjórnsýslu jafnréttismála með einhverjum hætti. Svo má velta fyrir sér hver verður framtíð Jafnréttisráðs eins og því er nú búin umgjörð hér í frv. Ég hef vissar efasemdir um að það muni halda vægi sínu til lengri tíma litið þegar verksvið þess er fyrst og fremst takmarkað við vinnumarkaðshluta jafnréttismálasviðsins eins og frv. gerir ráð fyrir.

Síðan mætti nefna, herra forseti, t.d. þær lagfæringar sem lagðar eru til á 19. gr. Sú grein frv. sem var að mínu mati einna hroðvirknislegast unnin, var gölluð og gat tæpast staðist eins og hún var fram sett og nefndin hefur því gert á henni talsverðar breytingar og ég tel að hún geti alveg staðist sem slík að þeim gerðum.

Herra forseti. Auðvitað er alveg ljóst að löggjöf ein og sér mun aldrei nægja eða duga til að tryggja fullt jafnrétti kynjanna, það þarf að sjálfsögðu meira til. En hún er engu að síður mikilvæg og nauðsynleg. Að sjálfsögðu á í lögum að banna mismunun á grundvelli kynferðis. Hitt er svo annað mál að löggjöfinni samhliða þurfa líka að fylgja ýmsar aðgerðir. Ég held að menn verði líka að horfast í augu við og sætta sig við að það mun taka tíma og það tekur tíma að framkalla þær samfélagsbreytingar sem eru í raun forsenda þess að við getum bundið vonir við að fullt jafnrétti kynjanna ríki í reynd. Þær samfélagsbreytingar og þær viðhorfsbreytingar í samfélaginu þurfa að nást í gegnum fræðslu í skólakerfinu, í gegnum uppeldi og upplýsingu og umræður og að síðustu munu þær væntanlega þannig skila sér í gegnum kynslóðaskipti. Þrátt fyrir allt held ég að flestir geti tekið undir að okkur hafi miðað mikið fram á veginn, þó ekki væri tekinn lengri tími en sá sem núgildandi jafnréttislöggjöf eða lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna hafa gilt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég tel þær breytingar sem lagðar eru til á frv. vera til mikilla bóta og styð þær og mun styðja frv. að þeim samþykktum.