Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 19:37:25 (7070)

2000-05-08 19:37:25# 125. lþ. 108.9 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[19:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Verið er að ræða afskaplega mikilvægt mál og ekki í fyrsta sinn. Þetta er eitt af þeim málum sem við höfum sett afskaplega mikið í forgang á liðnum árum, þetta er mál sem jafnaðarmenn hafa ævinlega látið mikið til sín taka í og verið frumkvöðlar í að gera breytingar á. Þess vegna fagna ég því að það sé komið til afgreiðslu af því það kom á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga. Nú erum við að afgreiða þetta frv. sem er tæki í jafnréttisbaráttunni en eingöngu tæki og eitt af mörgu því sem þarf að vera í lagi til þess að við getum náð fram því sem hér er markmiðið, nefnilega jafnrétti kynjanna.

Auðvitað er mikilvægt að fá góð og öflug lög að starfa eftir í jafnréttisbaráttunni. En við vitum líka að það þarf meira til. Það þarf hugarfarsbreytingu, það þarf gagnkvæma virðingu fyrir verkefnum kynjanna hvors um sig, það þarf aukið traust á því að það kyn sem síður hefur leitað í ákveðið nám eða leitað í sérstök störf eigi erindi í það nám og inn í þau störf. Það er mjög margt sem þarf að vera í lagi í þjóðfélagi okkar, sem er það ekki í dag, til þess að sá árangur náist sem stefnt er að.

Virðulegi forseti. Gífurlega miklar þjóðfélagsbreytingar hafa orðið á liðnum árum og ef við tökum síðustu tvo áratugina er varla hægt að bera saman umræðuna varðandi jafnrétti kynjanna þá og núna, bæði vegna breytinganna og líka vegna væntinganna og kröfunnar um það sem þarf að vera í lagi í dag. Sú krafa er miklu harðari og ákveðnari, áður var hún meira óskir og væntingar og kannski beiðni um stuðning. Í dag ætlast ungar konur til þess að möguleikar þeirra séu jafnir og við sem höfum áhuga á að ná fram jafnrétti kynjanna ætlumst líka til þess að möguleikar kynjanna séu jafnir. Þetta á við hvort heldur er hvað varðar nám eða störf.

Það er að vísu þannig að í mörgum deildum Háskóla Íslands hefur konum fjölgað svo mjög að í allmörgum þeirra eru konur farnar að vera í meiri hluta, jafnvel í deildum sem áður voru nær eingöngu skipaðar körlum eða örfáar konur voru í fyrir svo sem áratug.

En í sumt nám er síður sótt af konum. Það á við um verkfræðinám og það á við um ýmiss konar nám sem byggist á stærðfræði. Þetta veldur nokkrum áhyggjum vegna þess að það er alveg ljóst að þegar við skoðum stöðu stúlkna og drengja á uppvaxtarárum eru stúlkur síst síðri stærðfræðingar en drengir og konur eru alls ekki síðri stærðfræðingar almennt en karlar. Þess vegna er það umhugsunarefni að konurnar sæki ekki í sama mæli í störf sem ættu að vera þeim hentug. Það er okkur umhugsunarefni að viðhorfsbreytingin hefur ekki náð nægilega fram að ganga.

Það er hins vegar þannig að konur hafa haslað sér völl t.d. við stjórnvölinn í fyrirtækjum. Þannig getum við nú bent í ýmsar áttir í viðskiptalífinu og sagt: Sjáið, þarna eru konur jafngóðar og karlar, þarna er kona á öflugum stað í rekstri fyrirtækis. Hver einasta slík hefur verið bæði fyrirmynd og hvatning fyrir aðrar konur varðandi það sjálfstraust sem þær verða að hafa til að sækja fram á öllum vígstöðvum. Þannig hefur það gerst að t.d. í peningaheiminum, þar sem karlar voru miklu meira ráðandi í gegnum árin en konur, karlar voru gjarnan í öllum hærri stöðum og konur í þjónustunni, hafa konur sótt inn og eru þar bæði deildarstjórar og forustumenn á ýmsum sviðum.

Sama má segja um pólitíkina og því ber samsetning Alþingis nú vitni. Við höfum náð því að fara yfir 30% markið og brutum þá þetta fræga glerþak. Auðvitað er það ljóst að í heimi kvenna er ekki bara glerþak við 30% heldur ótal glerveggir sem hefur þurft að steyta á og reyna að brjóta til þess að ná þeirri samstöðu sem er mikilvæg til að konur og karlar nái því að fara fram um veg í fullkomnu jafnrétti. Því miður, herra forseti, er langt í land enn þá að fullkomið jafnrétti náist.

Það er nú einu sinni þannig að konur hafa mjög lengi ætlað sér öll hlutverk konunnar. Þegar ég segi ,,öll hlutverk konunnar`` á ég við arf formæðranna og frá þeim arfi og inn í hinn nýja tíma. Konur hafa vanið sig á að slengja þessu saman í nokkur hlutverk þar sem þær gera kröfur á sjálfan sig að geta sinnt þeim öllum. Við höfum áður fjallað um það sem við höfum kallað ,,ofurkonuna`` undir, að mig minnir umræðu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Þá eigum við ekki við þá ofurkonu sem getur tekist á við hundrað verkefni og ráðið við þau öll eða tvöfalt fleiri verkefni en einhver karl og ráðið við þau öll heldur það að konur hafi í of ríkum mæli ætlað sér að halda áfram verkunum sem voru arfur formæðranna á sama tíma og þær takast á við nýja tímann og einsetja sér að vera jafngóðar og hver annar í nýja heiminum, í nýja starfinu, í nýja náminu eða hvað það er sem heyrir með í því þegar konur og karlar vilja ná því sama fram.

Í þeirri umræðu töluðum við líka um það að ,,ofurkonan`` væri því miður í mörgum tilfellum að bugast vegna þess sem hún hefur sett sér fyrir. Þess vegna þarf hugarfarsbreytingin líka að beinast að konum með það að sættast við sjálfa sig á sama tíma og þær fara inn í ný hlutverk að þær láti af einhverju af einhverju af því sem þær ætluðu sér áður. Enda er það nú svo að sérstaklega hefur yngri kynslóð og kannski fremur sú yngri kynslóð sem hefur menntað sig, náð því að hafa hlutverkaskipti og sameinast um verkefnin sem voru áður á hendi kvenna. Þannig er það núna í ríkum mæli að ungir menn taka á sig fjölskylduhlutverkið og njóta þess. Því er svo mikilvægt að í þessu frv. skuli tekið á rétti feðra. Ég tek heils hugar undir það og margt annað sem hér er verið að setja í lög sem við höfum kallað eftir á liðnum árum og beðið eftir.

[19:45]

Það er mjög mikilvægt þegar fram kemur stjfrv. sem tekur á málum við höfum talað fyrir í áranna rás að fagna því, styðja það og þora að lýsa því yfir að hér sé vel að verki staðið. Það geri ég, herra forseti, þó ég taki á sama tíma fram að mér fyndist að þetta mál og þessi lög yrðu mun betri ef brtt. Guðrúnar Ögmundsdóttur og Kristjáns L. Möllers, þingmanna Samfylkingarinnar, næðu fram að ganga. Samfylkingin styður þessar brtt. fulltrúa sinna og ég hvet til þess að þingmenn stjórnarliðsins endurskoði hug sinn og athugi hvort ekki væri rétt að taka undir þessar tillögur.

Ég sagði áðan að jafnréttislög væru aðeins tæki og að hugarfarsbreyting væri þýðingarmikil. Ég hef oft haldið ræður um hversu mikilvægt er að konur hafi frelsi til sjálfstæðrar þátttöku hvort heldur er í starfi, pólitík eða félagsstörfum. En til er önnur hlið á jafnréttismálunum, þ.e. fjölskyldupólitíkin.

Við getum spurt: Hvað þarf til þess að karl og kona blómstri hlið við hlið í því sem þau takast á við í jafnréttisleit sinni? Umhverfi fjölskyldunnar þarf að vera í lagi þegar um er að ræða ungt fólk með fjölskylduábyrgð. Félagslega öryggisnetið þarf að vera í lagi vegna þess að hafi ungt fólk fjölskylduábyrgð þá eru fleiri í stórfjölskyldunni, ekki bara pabbinn og mamman og börnin heldur líka fólk sem stendur ungum fjölskyldum nær, þ.e. amman og afinn eða aðrir sem þurfa á því að halda að finna stuðning ef eitthvað bjátar á. Einnig eru til öðruvísi fjölskyldugerðir, við höfum verið að fjalla um ólíkar fjölskyldugerðir að undanförnu. Það er mikilvægt að umhverfi fjölskyldnanna, hvers eðlis sem þær eru, sé í lagi. Fjölskyldunni þarf að skipa lagaramma, lög sem ekki eru aðeins innantóm orð heldur þurfa að fylgja þeim framkvæmdir.

Fyrir ári samþykktum við fjölskyldustefnu á Alþingi. Það var þáltill. og í henni fólst að ríkisstjórnin mundi leggja fyrir Alþingi tillögur um úrbætur með lagafrumvörpum. Í kjölfar samþykktarinnar hafa fáein lagafrumvörp komið fram. Ég get nefnt tillöguna um ILO-samþykkt nr. 156, um að óheimilt sé að segja fólki upp störfum vegna fjölskylduábyrgðar. Ég fagna því frv. mjög. Við höfum líka fjallað um frv. um samkynhneigða og réttarbætur til þeirra. Þeirra var sérstaklega getið í þessari þáltill. Eitthvað fleira, þó ekki sé það mjög margt, hefur komið inn í þingið en það þarf að gera betur til að fylgja tillögunni eftir. Það þarf að gera meira en að fylgja þáltill. um fjölskyldustefnu eftir með lagafrumvörpum vegna þess að allar aðgerðir sem skipta máli kosta peninga.

Þegar við skoðum umsögn fjmrn. um frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þá segir að útgjaldaauki verði ekki mjög mikill með þessu frv. Farið er yfir verkefnin, breytt fyrirkomulag og annað slíkt og hvað aðrar stofnanir muni uppfylla af því sem er í frv. Með fjölgun verkefna á Skrifstofu jafnréttismála, innan ráðuneyta og með aukinni áherslu á fræðilegar og hagnýtar rannsóknir er talið að gera megi ráð fyrir að útgjaldaauki ríkissjóðs geti numið 0,5--1,0 millj. kr. verði frv. óbreytt að lögum.

Nú kemur það ekki fram í nál. hvort þessi útgjaldaauki verði meiri en við vitum að til þess að jafnréttisaðgerðir virki, ég tala nú ekki um fjölskylduaðgerðir, þá þarf að kosta til meira en 0,5--1,0 millj. kr. Svona lög og lögin um fjölskyldustefnu eru fyrirheit um aðgerðir og fyrirheit um það sem menn ætla sér að stefna að og ná fram. En í þeirri stefnu felst að til hennar þarf að veita peninga svo hún geti orðið virk.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta nægja um þetta ágæta frv. um leið og ég endurtek að mér finnast brtt. fulltrúa þingflokks Samfylkingarinnar mjög þýðingarmiklar. Ég verð jafnframt að kalla eftir því að hæstv. félmrh., en undir hann heyra bæði jafnréttismál og fjölskyldumál, bretti upp ermar og knýi á við ríkisstjórnina að gera frekari úrbætur og setja fjármagn í það sem máli skiptir. Ég þarf ekki að telja það upp hér. Yfir það hefur nýlega verið farið m.a. í tengslum við kjarasamninga. Í utandagskrárumræðu í dag var líka fjallað um það sem óskað er eftir í úrræðum fyrir fjölskyldurnar í þessu landi. Um leið og ég fagna því að við höfum náð niðurstöðu um lög um fæðingarorlof kalla ég eftir því að betur verði tekið á í þessum málum sem stuðla að betra umhverfi fjölskyldunnar og virkara öryggisneti í þjóðfélagi okkar.