Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 19:52:58 (7071)

2000-05-08 19:52:58# 125. lþ. 108.9 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[19:52]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðurnar sem hafa orðið hér um þetta mikilsverða mál. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ljúka þessari umræðu en vil þó aðeins hlaupa yfir brtt. frá hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur og Kristjáni L. Möller og skýra aðeins af hverju ekki náðist samstaða um þá hluti sem þau eru þar að leggja til.

Í fyrsta lagi leggja þau til að tekin verði inn sáttaleið hjá Jafnréttisstofu, milli einstaklinga og hópa annars vegar og fyrirtækja eða einstaklinga hins vegar í ákveðnum ágreiningsmálum. Nefndin ræddi þetta mjög mikið, fékk álit lögfræðinga og velti fyrir sér hvort þetta stæðist þar sem til stóð að taka inn í frv. málshöfðunarheimild hjá Jafnréttisstofu. Segja má að þegar Jafnréttisstofa hefur leitað sátta með aðilum þá er mikil hætta á að skrifstofan gæti snúist á sveif með öðrum aðilanum og höfðað mál á hendur hinum. Það verður satt að segja, hæstv. forseti, að teljast nokkuð hæpið. Í þessum tilfellum verður að hafa skýrar línur um verksvið hvers og eins. Meiri hlutinn tók þá afstöðu og féllst því ekki á þessa leið.

Varðandi það hversu langt Jafnréttisstofa á að teygja sig í aðstoð við einstaklinga þá er það nokkuð vandmeðfarið. Þarna er lagt til að þeim sem eru með mál fyrir úrskurðarnefndinni verði veitt aðstoð. Í fyrsta lagi vantar nánari skilgreiningar á hvers konar aðstoð þarna er um að ræða. Hlutverk Jafnréttisstofu er hins vegar m.a. að veita ráðgjöf bæði stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og félögum. Jafnréttisstofa hefur nokkuð víðtækt umboð til að veita ráðgjöf en að teygja það út í aðstoð þykir mér nokkuð hæpið.

Síðan er þarna brtt. varðandi það að ekki skuli vera kærunefnd, eins og lagt er til í frv. og meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi, heldur skuli þar vera úrskurðarnefnd. Á þetta gat meiri hlutinn ekki fallist og taldi málið betur komið eins og gert er ráð fyrir í frv. Í stjórnsýslunni eru starfandi fjölmargar kæru- og úrskurðarnefndir og valdsvið þeirra er mjög mismunandi. Flestar hafa nefndirnar fullnaðarúrskurðarvald í stjórnsýslunni þannig að ákvarðanir þeirra verða ekki endurskoðaðar nema af dómstólum. Eina leiðin til að hnekkja úrskurði þeirra er með málshöfðun. Aðrar nefndir á borð við kærunefnd jafnréttismála og kærunefnd fjöleignahúsamála geta beint tilmælum til hlutaðeigandi. Það er því þess sem telur á sér brotið að höfða mál fyrir dómstólum sé ekki farið að tilmælum nefndarinnar. Í frv. er gert ráð fyrir álitsgefandi kærunefnd. Sú leið var valin og ég tel að hún sé affarasælli en það að hafa úrskurðarnefnd.

Í brtt. er einnig lagt til að hafa ellefu manna Jafnréttisráð. Okkar mat var, þó að við teygðum okkur upp í að hafa níu manna Jafnréttisráð, að þetta væri orðið nokkuð fjölmennt ráð yrði það ellefu manna. Benda má á að hugsanlega ættu fleiri að eiga aðild að Jafnréttisráði og það var gert hér við 1. umr. en ég held að við gætum kannski seint stoppað ef við ætluðum að hafa með alla þá sem hugsanlega hefðu eitthvað til jafnréttismála að leggja í Jafnréttisráði. Auðvitað eru þeir fjölmargir sem hafa áhuga á jafnréttismálum og sinna þeim með einhverjum hætti.

Hér er einnig lagt til að Jafnréttisráð skuli standa fyrir málþingum og annarri opinni umræðu. Sú leið var farin að taka jafnréttisþingin út úr frv. Talið var að þau hefðu ekki skilað nægilega góðum árangri í jafnréttisumræðunni. Auðvitað hefðu þau eitthvert hlutverk en kannski ekki nægilega mikið miðað við það sem til er stofnað. Betra er talið að þeir sem eiga aðild að Jafnréttisráði standi fyrir málþingum og tillögugerð á sínum eigin vettvangi eins og aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin. Þar gæti komið upp þessi virka umræða sem síðan á auðvitað að fara fram í Jafnréttisráði. Í brtt. okkar var einnig gert ráð fyrir að hlutverk Jafnréttisráðs yrði víkkað töluvert út, bæði með því að Jafnréttisráð gæti lagt til við ráðherra breytingar varðandi vinnumarkaðsmál sem lúta að jafnréttismálum og eins gæti Jafnréttisráð haft skoðun á öðrum málum í samfélaginu sem varða jafnréttismál og komið með tillögur þar að lútandi.

[20:00]

Hvað varðar brtt. þeirra hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur og Kristjáns Möllers við 20. gr. þá lýsti ég því yfir við 1. umr. að ég væri nokkuð veik fyrir þeirri tillögu og ég get endurtekið það. En ég held samt sem áður og ekki síst eftir að ég heyrði viðtal við ungar konur í Samfylkingunni, en fram kom á þingi þeirra að slíkar kvótareglur væru farnar að standa nokkuð í vegi fyrir því að konur komist til þeirra áhrifa og valda sem þær óska eftir, að ég falli nú frá þessu. En auðvitað er það svo, eins og kom fram í svari sem dreift var í þinginu í dag, að það er ekki nægilega góð staða hjá hinu opinbera varðandi það hvernig skipað er í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, um þessar brtt. Ég legg til að þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar stóð að, og reyndar hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Kristján Möller einnig að mestu leyti, verði samþykktar hér.

Það kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hlutverk Jafnréttisstofu væri styrkt. Ég tel að þarna sé komin stofnun sem muni geta sinnt þessu hlutverki sínu mjög vel að sjá um stjórnsýsluna á sviði jafnréttismála. Það er a.m.k. von okkar að þetta verði til þess að styrkja þá stöðu. Skrifstofa jafnréttismála var framkvæmdaraðili fyrir Jafnréttisráð en nú erum við að gera þessar kerfisbreytingar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það einnig að honum þætti verksvið Jafnréttisráðs léttvægt. Ég get ekki verið sammála því. En eins og kemur fram í tillögunum þá styrkjum við það og auðvitað fer það mjög eftir því hverjir eru skipaðir í Jafnréttisráð hvers konar umræða þar er og hvers konar vinnu það skilar af sér til úrbóta í jafnréttismálum.

Hæstv. forseti. Ég ætla nú að ljúka máli mínu. Ég vil taka fram að ég er sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að fjölskyldupólitíkin í þessu skipti mjög miklu máli og hún er svo sannarlega tekin hér inn í þetta frv. þar sem einn mikilvægasti þátturinn í því er einmitt samræming fjölskyldu- og atvinnulífs. Það kom fram í nefndaráliti okkar að við erum þeirrar skoðunar að það sé ein mikilsverðasta áherslan í frv.

Hæstv. forseti. Hér er vonandi verið að stíga mikilsvert skref í jafnréttismálum. Ég er þó sannfærð um að það mál sem við afgreiddum fyrr í dag, frv. um fæðingar- og foreldraorlof, sé enn stærra skref og það á örugglega eftir að sýna sig. Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir góð störf við vinnslu málsins. Það fór fram mjög ítarleg umræða um frv. og skoðun á málinu og ég trúi því að það sjáist í tillögum okkar.