Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:41:15 (7077)

2000-05-08 20:41:15# 125. lþ. 108.30 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hér í framsögu með nefndaráliti, skrifa ég ásamt Rannveigu Guðmundsdóttur undir álitið með fyrirvara. En við munum flytja brtt. við 3. umr. málsins í þá veru að taka skuli gjald ekki aðeins fyrir ólífræna auðlind á hafsbotni heldur einnig lífræna.

Það kom fram við 1. umr. að það er fullkomin rökleysa að taka ekki gjald fyrir hvaða efnistöku sem er eða hvers konar auðlind sem menn hafa aðgang að og er í eigu allra landsmanna, hvort sem það er skeljasandur, olía eða annað það sem á hafsbotni er, svo sem skelfiskur, fiskur, rækja eða hvað það er. Við munum því leggja fram breytingartillögu í þá veru að hugtakið auðlind samkvæmt þessum lögum taki til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins.

Einnig teljum við óeðlilegt að ráðherra hafi sjálfdæmi í því að afhenda aðgang að auðlindinni og teljum eðlilegt að um það fari fram útboð í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd útboða þannig að ef til stendur að veita aðgang að auðlind, efnistöku, fiskveiðum, borun eða hverju sem er þá verði það auglýst og ekki úthlutað fyrr en að undangengnu útboði.

Í þessu felast fyrirvarar okkar í þessu máli. Það er fullkomlega eðlilegt að taka gjald fyrir aðgang að auðlindum í almannaeign, í eigu þjóðarinnar, og þar á ekki að undanskilja lífrænar auðlindir á hafsbotni.