Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:49:02 (7080)

2000-05-08 20:49:02# 125. lþ. 108.30 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:49]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um að við erum skammt á veg komin í rannsóknum. Það sem mikið var til umræðu í nefndinni var þetta ráðherravald varðandi útdeilingu eða leyfisveitingu til að vinna þessar auðlindir og ég hefði talið að með því að vinna saman lögin um olíu- og gasvinnslu og þetta mál þá hefði ýmislegt skýrst í sambandi við það hvernig á að fara með þessi mál. Ég tel t.d. varðandi olíu- og gasvinnsluna og hvernig að leyfisveitingum er staðið þar, þá hefðum við þurft --- eins og varðandi efnistöku að öðru leyti --- að ráðfæra okkur og taka mið af því sem gerst hefur í löndunum í kringum okkur því að þjóðir eins og Danir og auðvitað Norðmenn hafa mjög langa reynslu í því hvernig farið er með þessi mál.

Ég man eftir því t.d. þegar Danir hófu olíu- og gasvinnslu, þá var það talið þjóna hagsmunum ríkisins til að koma vinnslunni af stað að það væri í valdi ráðuneytisins, ef ég veit rétt, að fara með þessar --- eigum við að segja frumúthlutanir, en þarna er reynsla sem er fengin sem við ættum að sjálfsögðu að kynna okkur og tileinka. Færeyingar eru jafnvel komnir vel á veg í þessum málum. Ég vil árétta að ég hefði talið betra að taka þetta samhliða.