Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:51:01 (7081)

2000-05-08 20:51:01# 125. lþ. 108.27 fundur 559. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (nálgunarbann) frv. 94/2000, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:51]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. við frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, þ.e. fyrir nálgunarbanni.

Í mars árið 1997 lagði hæstv. dómsmrh. fram skýrslu á Alþingi um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í kjölfar þess var ákveðið að skipa þrjár nefndir til að huga að úrbótum á þessu sviði. Þessar nefndir lögðu einróma til að reglur um nálgunarbann yrðu lögfestar.

Með frv. sem við ræðum hér í kvöld er lagt til að lögfest verði sérstakt úrræði til að vernda þá sem hafa orðið fyrir ofsóknum og ógnunum með því að leggja bann við að sá sem ofsækir eða ógnar komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með einhverju móti í samband við þann sem bannið verndar. Nálgunarbanninu er því ætlað að vernda bæði fórnarlambið og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Það er markmiðið með frv.

Herra forseti. Nefndin ræddi nokkuð þá málsmeðferð sem lögð er til í frumvarpinu. Lagt er til að lögregla geri kröfu til dómara um nálgunarbann og í framhaldi af því ákveði dómari þinghald til að taka kröfuna fyrir og gefi út kvaðningu á hendur þeim sem krafan beinist að. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að þetta verði virkt úrræði þannig að það veiti þá vernd sem að er stefnt og að málsmeðferð gangi hratt fyrir sig hjá lögreglu og dómstólum en þó þannig að hagsmuna þess sem sæta á banninu verði ætíð gætt. Við umfjöllun málsins var rætt hvort ástæða væri til að veita þeim sem óskað hefur eftir því við lögreglu að úrræðinu verði beitt, en fær synjun, sjálfstæða heimild til að óska úrskurðar dómara um það. Niðurstaða nefndarinnar er að heppilegt sé að þessi mál séu í umsjá lögreglu. Telur nefndin að til þess að úrræðið veiti nægilega vernd geti komið til greina að lögregla geri kröfu um nálgunarbann þó að hún telji að um vafatilvik sé að ræða í þeim tilgangi að fá úrskurð dómara um hvort rétt sé að beita banninu. Þá bendir nefndin á að synjun lögreglu um að krefjast nálgunarbanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytis. Nefndin leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að lögreglumenn séu vel upplýstir um þetta úrræði og beinir hún því til dómsmálaráðherra að sjá til þess að fjallað verði um það í tengslum við menntun og endurmenntun lögreglumanna --- hugsanlega í tengslum við Lögregluskólann --- eða að fram fari fræðsla um það með öðrum hætti.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.