Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:17:46 (7090)

2000-05-08 21:17:46# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:17]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta fjallar ekki um lagasetninguna sem slíka. Þetta fjallar um framkvæmd hennar og reynslu okkar af henni á þessu ári, það hvernig hún fór af stað. Þar tel ég að staldra eigi við, búa til nýjar verklagsreglur og vinna í trausti þeirra sem koma að máli.

Ég leyfi mér að vekja athygli á, máli mínu til stuðnings, þeirri skoðun hæstv. landbrh. sem segist hafa lagt það til í ríkisstjórn að nefndarmenn, kröfugerðarnefndarmennirnir, kæmu úr þremur ráðuneytum, einn úr fjmrn., einn úr landbrn. og einn úr félmrn. Það eru því fleiri en ég og þeir aðilar sem standa næst þessu máli sem óska eftir því að farið verði fram í trúnaði við þá sem eiga hlut að máli. Þetta fjallar ekki um ólíkrar skoðanir manna eða hver verði niðurstaðan. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að auðvitað þurfum við að fá úr þessu skorið og fá þessar þjóðlendur skilgreindar og afmarkaðar.

En vinnan við það á að fara fram í trúnaði. Þessi tillaga hér leggur áherslu á að það verði haft að leiðarljósi, að staldrað verði við, málið endurskoðað og unnið í sátt við þá sem hlut eiga að máli.