Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:30:51 (7092)

2000-05-08 21:30:51# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:30]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. um að mikilvægt er og eðlilegt að það sé alveg skýrt hvað sé þjóðlenda.

Ég tek undir það líka með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að nær væri að við værum að ræða hvaða skilyrði á að setja til lands til að það verði gert að þjóðlendu og ekki endilega láta eignarhöld ráða þar alfarið eins og umræðan hefur leiðst út í. Það að eignarhald skuli ráða gefur ekki rétta mynd af þeirri sýn sem við höfum á hvaða hluti landsins eigi að vera þjóðlenda. Það er það sem við hefðum átt að ræða. Ég tek alveg heils hugar undir það.

Hins vegar vek ég athygli á því að strax þegar reynir á þau lög sem hv. þm. vitnar til, sem eru nýsamþykkt, verður að fara að gera á þeim talsverðar breytingar. Það sýnir hversu vel hefur verið vandað til. Til viðbótar, herra forseti, eru bæði hv. þingmenn og jafnvel ráðherrar að gefa yfirlýsingar utan þings og reyndar innan líka um að þeir vildu sjá aðra framkvæmd á málinu. Mér finnst að það eigi þá að ganga eftir og hæstv. ráðherrar og þingmenn eigi að fylgja þeim skoðunum sínum þar sem þeir hafa valdið til þess. Það er ég að styðja með frv.

En ég tek undir með hv. þm. um skilgreiningarnar á þjóðlendunum.