Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:37:17 (7095)

2000-05-08 21:37:17# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við getum farið í orðræðu um óbyggðanefndina. Hún beinir kröfu til nefndar ríkisins hvaða landsvæði er tekið undir.

Mér hefur verið hugsað til þess í orðaskiptum og umræðu hér hvað þeir fluttu mörg mál í þessum sal, fyrrv. alþm. Bragi Sigurjónsson og Ragnar Arnalds. Þessir menn fluttu aftur og aftur mál um land í þjóðareign og komust ekkert áfram með það. Ég vil við þessa umræðu, þegar við erum þó komin þangað að vera að ljúka frv. um þjóðlendur, minnast þessara manna sem héldu því við að minna á það hverra umbjóðenda við erum hér í þessum sal og hvernig okkur ber gagnvart komandi kynslóðum að skoða og gæta að. Og vissulega hefur það sýnt sig í umræðunni um öll þau mál sem ég hef getið hér, að hallað hefur á eign þjóðarinnar sjálfrar í allri umfjöllun, nema í þessu eina máli. Það er spurning hvort við erum ekki orðin allt of sein með að setja þessi lög miðað við það hvernig umræðan hefur þróast, meira að segja núna í sambandi við þetta frv.