Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:38:57 (7096)

2000-05-08 21:38:57# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að taka þátt í umræðum um þjóðlendumálið á sínum tíma þegar það varð að lögum á Alþingi. Ég tel að þar hafi verið unnið þarft verk sem hefði í sjálfu sér átt að vera búið að vinna fyrir löngu. Það að skilgreina þjóðareign á óbyggðum og þeim landsvæðum sem eðlilegt er að séu almenningar og þjóðareign til framtíðar er að mínu viti mjög þarft og nauðsynlegt. Og þó að einhverjir einkaaðilar hafi nýtingarrétt á slíku landsvæði að því leyti til sem sú nýting er leyfð og möguleg hefur ekkert með það að gera að það geti ekki samt sem áður verið þjóðareign á því landi.

Ég er satt að segja dálítið undrandi á þeirri umræðu sem hefur farið fram núna þar sem áhyggjuefni manna virðist vera --- sérstaklega hv. þm. Jóns Bjarnasonar og þeirra frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði --- að á einhvern hátt sé verið að koma illa fram við landeigendur í þessu máli. Það liggur alveg ljóst fyrir að geti menn sannað eignarrétt sinn á þeim löndum er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir haldi þeim eignarrétti. Ég vil meina að úr því að þannig er í pottinn búið þurfi menn ekki að kvarta undan þeirri stöðu sem málið er í. Auðvitað geta menn verið með mismunandi skoðanir á því hvernig framkvæmdin hafi verið og hvort þar megi bæta úr og lítið við því að segja. En hins vegar skera dómstólar úr ef til þess rekur að mikil átök verði um þessi mál. (Gripið fram í.) Já, ég verð að segja að mér finnst þessi viðkvæmni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu máli svolítið sérkennileg og set það pínulítið í samhengi við þá viðkvæmni þeirra gagnvart því að hugsanlega verði einkaréttur manna að nýtingu á öðrum auðlindum tekinn af. Það hefur margoft komið fram að það virðast vera tveir minnihlutahópar í þjóðfélaginu sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur mestar áhyggjur af. Það eru landeigendur og það eru þeir sem hafa einkarétt á að sækja sjó á Íslandi. Mér finnst þetta mjög athyglisvert og umhugsunarefni vegna þess hvernig sá flokkur, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, hefur kynnt sig fyrir þjóðinni, að þetta skuli samt vera svona. (Gripið fram í: ... ekki orðin vinstri sinnuð?)

Ég tel að síður en svo sé of langt gengið með þessum lögum um þjóðlendur og tel reyndar og vil taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að full ástæða er til að skoða hvort ekki eigi að stækka þau svæði sem við skilgreinum sem þjóðlendur og ganga í að taka eitthvað af landi og bæta það þá ef það er í einkaeign til þess að koma í veg fyrir að í framtíðinni verði búið að ráðstafa þeim eignarlöndum á einhvern hátt vegna einkaeignarréttarins og taka þau frá komandi kynslóðum sem eiga að fá að njóta þessa lands. Við þurfum að fara varlega með og spara virkilega þetta land, þannig að í framtíðinni sé sem mest af því óspillt. Ég tel að álit þeirra sem á eftir okkur koma hljóti að fara eftir því hvernig við skilum landinu í hendur þeirra.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði að auðvitað þarf að móta stefnu um hvað ríkið á að eiga af þessum löndum og jörðum. Mikið er til af ríkisjörðum. Verið er að selja þær öllum stundum. Þær eru auglýstar og seldar fyrir lágt verð. Ég held því alls ekki fram að ríkið eigi að eiga jarðir, nema fyrir því sé einhver sérstakur rökstuðningur. Sé hann fyrir hendi á hann að byggjast á því að þar sé um að ræða land sem þurfi að halda sérstaklega til haga fyrir framtíðina, fyrir fólkið í landinu vegna náttúrufegurðar, náttúruauðlinda eða annars slíks sem er í landinu, en það á alls ekki að vera stefna ríkisins að eiga einhverjar jarðir sem nýta má til landbúnaðar eða að ekki séu nein sérstök skilyrði fyrir því að menn taki þau lönd til hliðar. Það er skoðun mín að fara þurfi vandlega yfir þessi mál og koma þurfi upp einhvers konar stefnu og lýsingu á því hvernig menn munu vilja fara með þetta.

[21:45]

Ég tel að ekki sé ástæða til að taka undir það sem kemur fram í tillögu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þar sem hann er að lýsa yfir nánast vantrausti á hæstv. fjmrh. og þeirri nefnd sem hann hefur sett í þetta mál. Ég tel að í þessum umræðum hafi ekki komið ástæða til að taka undir það að lýsa eigi yfir vantrausti á þessum vinnubrögðum, þessari nefnd og hæstv. fjmrh. eins og hér er gert. Mér er til efs að nefnd sem sett verður saman af þessum ráðherrum öðrum hæstv., sem hér eru taldir upp, verði frekar fær um að ganga frá málum þannig að menn muni ekki gagnrýna það. Satt að segja held ég að enginn ætti að gera kröfu til þess að mál eins og þetta séu leidd þannig til lykta að ekki verði við því amast af neinum.

Niðurstöður nefnda eins og þessarar hljóta alltaf að vera umdeilanlegar og mér finnst ástæðulítið að kvarta undan því eða gera við það mjög sérstakar athugasemdir þó að upp komi þrætur vegna svona mála eins og þeirra sem eru til umræðu. Það er hið eðlilegasta og menn ættu ekki að þurfa að leita dæmanna langt aftur í tímann um þá þrætubókarlist sem Íslendingar hafa iðkað í gegnum tíðina um lönd og landamerki, það þekkja allir Íslendingar að fyrirferðarmestu mál í réttarfarssögunni á Íslandi oft og tíðum hafa verið þrætur um landamerki og lönd, eignarrétt á löndum, nýtingarrétt á löndum og þeim auðæfum sem löndunum fylgja.

Ekki er ástæða til þess frá minni hendi að halda langa ræðu um þetta mál en mér fannst ástæða til að vekja athygli á því sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar að mér finnst athyglisvert hversu mikla krafta hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt í að amast við því hvernig staðið hefur verið að þessu máli og hversu mikinn ákafa þeir leggja í að verja rétt landeigenda sem eiga af einhverjum ástæðum erfitt með að sanna eignarrétt sinn á heiðarlöndum. Ég segi fyrir mig að ég tel enga ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum eignarrétti. Annaðhvort geta menn sannað hann eða menn geta það ekki. Allir venjulegir borgarar í landinu þurfa að geta sannað eignarrétt sinn á húsum og lóðum og hví skyldu ekki bændur þurfa að gera það líka og þegar vafi leikur á þessum hlutum verða menn bara að láta sig hafa það að fá úr þeim vafa skorið. Hér hefur verið gengið frá málum með ákveðnum hætti hvernig eigi að skera úr þessum vandamálum. Ég hef enga ástæðu til að halda að þar standi menn ekki fullkomlega heiðarlega að málum.

Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að fella þá tillögu sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur lagt fram og í því felst í sjálfu sér ekki nein sérstök traustsyfirlýsing á hæstv. fjmrh. eða þá nefnd eða starfshóp sem hann hefur sett í málið en ég hef ekki séð neinn sérstakan rökstuðning fyrir því hér að ástæða sé til að lýsa yfir einhverju vantrausti á það sem hæstv. ráðherra er að gera eða starfsmenn hans í þessu máli. Læt ég svo lokið máli mínu, hæstv. forseti.