Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:51:58 (7098)

2000-05-08 21:51:58# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:51]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur greinilega gert sér far um að gæta sjónarmiða hæstv. landbrh. í umræðunni og með tillöguflutningi sínum. Nú er mér ekki kunnugt um hvort hæstv. landbrh. muni styðja þá tillögu sem er til umræðu og ég á frekar von á því að hann geri það ekki. Þess vegna er það mér til efs að hv. þm. Jón Bjarnason sé í raun og veru að leggja fram einhverja lausn á deilu milli þessara tveggja hæstv. ráðherra.

Ég tek auðvitað undir að gæta þarf jafnréttis gagnvart öllum, ekki bara sumum. Mér hefur ekki fundist það koma fram í umræðunni að verið væri að gera upp á milli aðila hvað varðar það hvernig tekið er á þeim málum sem verið er að ræða um. Ég tel enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því einfaldlega vegna þess að menn eiga eftir úrskurði og menn eiga eftir dómstólaleið. Þannig komast menn vonandi til réttlætisins og sannleikans að lokum í hverju deiluefni sem þarna munu koma upp.