Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:04:17 (7102)

2000-05-08 22:04:17# 125. lþ. 108.34 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. sagði, hæstv. forseti Alþingis. Ég hef átt töluvert mikil viðskipti við útgerðarmenn og alltaf átt gott samstarf við þá. Ég var að tala um lítinn hóp útgerðarmanna sem hefur verið áhrifavaldur á hv. Alþingi í tengslum við málið sem hér er til umræðu. Sá hópur er takmarkaður þar sem tiltölulega fáar útgerðir stunda þetta. Stórar útgerðir, útgerðirnar sem hafa ráðið stjórn LÍÚ í gegnum tíðina, hafa stundað þetta. Það er ekki hinn venjulegi útgerðarmaður, smábátaútgerðarmenn og þeir sem gera út grunnslóðaflotann hafa ekki stundað þá leikfimi sem hér hefur verið leyfð í gegnum tíðina. Það á ekki að taka orð mín þannig að ég sé að tala niður til þeirra sem hafa gert þetta. Hv. Alþingi ber fyrst og fremst ábyrgð á þeim reglum sem í gildi eru. Það þýðir ekki að vísa því á aðra.

Ég tek það hins vegar ekki til baka að þeir sem hafa haft mest áhrif á hv. Alþingi eru þeir útgerðarmenn sem ég nefndi, þeir sem hafa ráðið ferðinni og stjórnað hjá LÍÚ. Þeir hafa nýtt sér stöðu sína í því sem annars staðar er kallað lobbíismi fremur en nokkur annar þjóðfélagshópur sem hér hefur reynt að hafa áhrif á mál hjá hv. alþm. Mín reynsla er a.m.k. sú að sá hópur hafi verið þar atkvæðamestur og haft mest úr því að hafa áhrif á þingmenn.