Varðveisla báta og skipa

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:25:42 (7110)

2000-05-08 22:25:42# 125. lþ. 108.37 fundur 636. mál: #A varðveisla báta og skipa# þál. 18/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. sem hér liggur fyrir um varðveislu báta og skipa og flutt er af sjútvn. er hið besta mál. Hún fjallar um varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu. Hún fjallar um að mótaðar skuli reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í og að varðveiðslugildi báta og skipa skuli skilgreint.

Það er afar mikilvægt að saga útgerðar, sögu báta og bátasmíði hér á landi sé haldið til haga. Það er einnig afar eðlilegt að atvinnuvegurinn taki þátt í að varðveita sögu sína og menningararf. Það er beinlínis liður í þróunarstarfi hvers atvinnuvegar að halda þessu til haga og hafa það sýnilegt á hverjum tíma. Ég styð því heils hugar þessa þáltill.

Herra forseti. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að Bjarni Jónsson listmálari sem kom mjög við sögu við gerð bókanna um íslenska sjávarhætti með Lúðvíki Kristjánssyni sagnfræðingi, teiknaði þar myndir og skýringar bæði af bátum, vinnu og vinnubrögðum, hefur eftir hvatningu frá Lúðvíki heitnum Kristjánssyni og líka frá þáv. menntmrh. Ólafi G. Einarssyni, einmitt málað mjög vandaðar og fallegar myndir af bátum úr sögu Íslands, myndir af einstökum nafngreindum bátum. Hann hefur einnig málað myndir til þess að sýna mismunandi bátslag eftir landshlutum, af seglabúnaði og öðrum reiða sem tilheyrði þessum bátum, mismunandi eftir notkun, stærð og landshlutum.

Hér á landi eru ekki til bátar sem sýna þessa sögu og menningu en myndir og önnur vitneskja hefur varðveist sem hefur gert mönnum kleift að mála mjög góðar myndir af þessum bátum. Þetta safn er hann með heima hjá sér vegna þess að enn hefur ekki verið ákveðið hvað af þessum myndum verður. Ég vek máls á þessu því þarna er um mikla dýrgripi að ræða. Þekking þessa ágæta listamanns sem var verið að heiðra nú nýverið fyrir framlag hans til þessara mála, er mikil og liggur m.a. í þessum myndum og væri fyllilega ástæða til að skoðað væri hvernig ráðstafa bæri þeim í framhaldi af þeim væntingum sem hann bar til þess á sínum tíma þegar hann hóf að mála myndirnar. Það væri þá hluti af því verkefni sem hér er verið að leggja til að tekist verði á við.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að nefna þetta því þessi verðmæti hjá þessum ágæta listamanni tvístrast annars, verða seld eitt og eitt. Það væri hins vegar afar mikilvægt að varðveita þau í heild, sem heildarsafn, hluta af sögunni og þeim menningararfi sem við eigum í bátum og skipum Íslendinga bæði fyrr og nú.

Herra forseti. Þessi till. til þál. er er hið besta mál og ég tek undir væntingar og óskir um það fái afgreiðslu á þessu þingi.