Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:56:05 (7120)

2000-05-08 22:56:05# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem fram hefur komið, að þingmenn hafa verið að störfum frá því klukkan átta í morgun og að fundir eru fyrirhugaðir í nefndum að nýju klukkan átta í fyrramálið.

Herra forseti. Að gefnu tilefni. Formaður þingflokks Framsfl. gaf í skyn að ég væri andvígur því að mál komi fyrir þingið og vilji þingsins komi fram. Hann skírskotar þar sérstaklega til eins frv. um kjarasamninga. (KHG: Ég spurði.) Hann spurði, segir hann. Ég vil hins vegar upplýsa hv. þm. og formann þingflokks Framsfl. að ég er ekki andvígur því að mál komi til kasta þingsins og vilji þingsins komi fram.

Aftur á móti er það stjórnarmeirihlutinn sem forgangsraðar í nefndum. Stjórnarmeirihlutinn hefur þannig komið í veg fyrir að frv. um dreifða eignaraðild fjármálafyrirtækja komi til kasta þingsins og þingmeirihluti komi fram. Hann hefur hafnað því að þáltill. um Írak komi til kasta þingsins en hins vegar hefur hann knúið það fram að frv. um hnefaleika komi til afgreiðslu þingsins og það í nótt. Það er frv. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson á aðild að. Þetta er forgangsröð stjórnarmeirihlutans. Ég mótmæli því að hér á næturfundum séu tekin gæluverkefni ríkisstjórnarinnar af þessu tagi.

Ég er ekki andvígur því að mál komi til kasta þingsins og þingmeirihlutinn og þingviljinn komi fram en ég vil hafa áhrif á hvernig Alþingi forgangsraðar.