Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 23:11:27 (7124)

2000-05-08 23:11:27# 125. lþ. 108.11 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[23:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér kemur enn til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um kjarasamninga opinberra starfsmanna en samkvæmt þessu frv. er gerð brtt. á 14. gr. laganna þar sem kveðið er á um bann við hópuppsögnum. Þetta er sambærilegt eða svipað lagaákvæði og er að finna í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og gilda um hinn almenna vinnumarkað. Þar eru á ferðinni grundvallarlög en um opinbera starfsmenn gilda sérlög, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna og taka á ýmsum þáttum sem snerta þá sérstaklega.

Nú er það svo að uppi hafa verið hugmyndir og reyndar kröfur af hálfu starfsmanna ríkis og sveitarfélaga að breyting verði gerð á þessum lögum í samræmingarátt. Staðreyndin er sú að opinberir starfsmenn búa við mun þrengri réttarstöðu en gerist á almennum vinnumarkaði og hefur það verið þeim kappsmál að fá á þessu gerðar breytingar.

Það skýtur skökku við að ríkisstjórnin, sem gumar af því að hún vilji samræma þessi lög og það reglugerðaverk sem gildir um kjarasamninga í landinu almennt, skuli skella skollaeyrum við þessum kröfum úr herbúðum opinberra starfsmanna.

Tilurð þessa frv. eða ástæðan fyrir því að það kemur fram er sú að ekki alls fyrir löngu eða síðla árs 1999 var felldur dómur í Félagsdómi þar sem launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd Árborgar hafði höfðað mál gegn Félagi ísl. leikskólakennara. Þannig háttar til að nokkrir leikskólakennarar í Árborg höfðu sagt upp störfum vegna óánægju með launakjör sín. Var þá brugðið á það ráð að höfða mál gegn þeim fyrir Félagsdómi bæði sem einstaklingum en einnig gegn félagi þeirra, Félagi ísl. leikskólakennara. Þess var krafist að félagið, þ.e. Félag ísl. leikskólakennara greiddi allan málskostnað og annan tilkostnað.

Málið tapaðist hins vegar fyrir Félagsdómi. Samband ísl. sveitarfélaga tapaði dóminum eða öllu heldur launanefnd sveitarfélaga og þá gerist það að Samband ísl. sveitarfélaga fer þess á leit við ríkisstjórnina og fjmrh. hæstv. að hann flytji frv. sem banni hópuppsasgnir. Með öðrum orðum, á Alþingi á að hefna þess sem tapast í héraði og fyrir dómstólum og það er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn fer fram með þessum hætti. Þetta finnst mér sannast sagna ekki vera stórmannleg framkoma og ekki til eftirbreytni í réttarríki að mínum dómi.

[23:15]

Það er ástæða til að ítreka það sem áður hefur komið fram við umræðu um þetta mál, að kjarasamningalögin byggja á samningum. Þau byggja á samningum annars vegar BSRB, BHM og Bandalags kennarafélaga og hins vegar fjmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Það vill svo til, ég held að það sé reyndar engin tilviljun, að þetta samkomulag sem er undirritað af hálfu þessara aðila er birt sem upphaf greinargerðar í stjfrv. sem lagt var fyrir Alþingi haustið 1986 en þá voru gerðar miklar breytingar á þessum lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Það er svo margt makalaust í tilverunni, undarlegt og mótsagnakennt en á meðal þeirra sem mæla með því að þessi lög verði nú samþykkt frá Alþingi er hæstv. félmrh., fyrir hönd síns ráðuneytis. Hann ritar Alþingi bréf þar sem hann lýsir sérstökum stuðningi við þetta frv. og í því segir m.a., með leyfi forseta:

,,Óhjákvæmilegt er að bregðast við dómi Félagsdóms í máli nr. 7/1999 og taka af allan vafa um að sömu reglur um friðarskyldu á gildistíma kjarasamninga eigi við meðal opinberra starfsmanna sem á almenna vinnumarkaðnum. Með hliðsjón af framangreindu styður félmrn. frumvarpið.``

Nú er þess að geta að réttarreglurnar eru mjög ólíkar að öðru leyti. Þannig getur t.d. vinnuveitandi hjá hinu opinbera framlengt ráðningarsamning við einstaklinga ,,ef til auðnar horfir í starfseminni`` en á þá leið mun það vera orðað í lögum. Staða starfsmanna er því miklu veikari þar.

En því nefni ég þetta sérstaklega, þessa afstöðu hæstv. félmrh., að ég hef hér undir höndum umræður eða ljósrit af umræðum sem fram fóru hér á þingi árið 1986. Þar er m.a. vitnað í hv. þm. Jón Kristjánsson og ég skal finna þá tilvitnun en ég vitna í hæstv. núv. félmrh. Pál Pétursson. Hann sagði:

,,Frv. þetta er samkomulagsmál fjmrn. og BSRB, BK, og BHMR. Ekki var því tiltækilegt að breyta því mikið en málsaðilar óskuðu eftir því að viðbótarsamkomulag, sem þeir höfðu gert með sér, birtist í nál. þannig að um túlkun á ákveðnum atriðum í 14. og 17. gr. frv. yrði ekki ágreiningur.``

Það vill einmitt svo til að það er 14. gr. sem nú á að breyta. En á þessa leið talaði hæstv. félmrh. í umræðum hér á Alþingi árið 1986.

Fleiri tóku til máls um frv. á þessum tíma. Í máli hæstv. þáv. fjmrh. kom fram mjög eindreginn skilningur á því að hér væri um samkomulag að ræða, hérna væri kjarasamningamál á ferðinni sem yrði að virða. Hér er á ferðinni samkomulagsmál, þetta er kjarasamningsatriði.

Fyrir fáeinum dögum hófst hér 3. umr. um málið. Þá fór ég mjög ítarlega yfir umsagnir sem Alþingi hafa borist vegna þessa máls. Ég fór mörgum orðum um þessar umsagnir og vitnaði ítarlega í þær. Ég ætla ekki að gera það núna, það hefur þegar fengið umfjöllun hér á þinginu og er fest hér í þingskjöl. Ég ætla ekki að þreyta menn á því að tíunda þessar umsagnir frekar. Ég hef hins vegar beint þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort honum finnist einróma álitsgerðir frá öllum helstu samtökum launafólks í landinu sem lögin taka til ekki skipta nokkru máli, frá BSRB, frá BHM, frá Kennarasambandi Íslands og frá aðildarfélögum þessara félaga. Álitsgerðirnar eru allar á einn veg. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru fordæmd og framganga hæstv. fjmrh. sérstaklega sem að dómi þessara samtaka hefur rofið samninga. Hann hefur rofið samninga með þessari framgöngu.

Í umræðu um þetta mál hefur líka komið fram að þessi samtök eru á því að gera beri grundvallarbreytingar á þessum lögum. Menn vilja hins vegar gera þær breytingar í víðu samhengi en ekki tína út einstök atriði að geðþótta atvinnurekendanna, sveitarfélagastjórna og fjmrn., heldur ætlast menn til að þetta sé gert í samkomulagi.

Enn eitt atriðið sem ég nefndi og beindi til hæstv. fjmrh., tengist þessu máli reyndar ekki beint. Það er eiginlega laustengt því. Ég vakti máls á því hér um daginn og hef gert það oftar en einu sinni að spurningum hafi verið beint til hæstv. fjmrh. um launaþróun innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég benti á að þau svör sem bárust frá fjmrn. eru með öllu óviðunandi. Sumu er svarað út í hött, öðru er hreinlega ekki svarað og ég hef orðið var við að á vinnustöðum, meðal starfshópa innan heilbrigðisþjónustunnar, er mjög mikil óánægja með þessi vinnubrögð. Í svörunum eru tilgreind launakjör hjá heilum starfshópum og starfsstéttum án tillits til vinnuframlags. Um það var ekki spurt í þeim spurningum sem ég beindi til hæstv. fjmrh.

Hvers vegna rifja ég þetta mál upp núna? Jú, vegna þess að á flestum málum eru tvær hliðar. Starfsfólk segir upp störfum, stundum sem einstaklingar og stundum sem hópar. Ég hef oft látið það koma fram að ég er andvígur því að beita hópuppsögnum í kjarabaráttu. Ég tel að það komi í koll þeim stéttum sem það gera þegar til lengri tíma er litið og tel það mjög varasamt. En ég hef jafnframt sagt að ábyrgðin er líka hjá atvinnurekendum. Þar hefur oft verið gripið til ráðstafana sem eru ósanngjarnar og stundum fara þær út fyrir velsæmismörk.

Komið hefur fyrir að einstaklingar og hópar telja á sér brotið og að ekki hafi verið staðið við kjarasamninga af hálfu atvinnurekandans. Til þess að ganga úr skugga um að svo sé og komast að hinu sanna í slíkum málum þurfa allar upplýsingar að vera uppi á borði. Það er grundvallaratriði. Ég hef af því þungar áhyggjur að innan ríkiskerfisins og reyndar hjá sumum sveitarfélögum, í mismunandi mæli þó, hvíli vaxandi leynd yfir launakjörum og launaþróun. Ég hef af því áhyggjur að þetta færist í vöxt.

Þegar fjmrh. hæstv., sem er ábyrgur fyrir þessum málum hjá ríkinu, svarar út í hött eða neitar að svara, gefa réttar upplýsingar, þá er það ekki til þess fallið að skapa traust innan þessara stofnana. Þess vegna er ekkert undarlegt að þar færist óánægja í vöxt sem leiði til uppsagna einstaklinga og hópa einnig.

Herra forseti. Þungamiðjan í því sem ég vildi segja í þessu máli hvílir á tvennu. Annars vegar því að ég tel það grundvallaratriði að menn standi við gerða samninga og það eigi við um alla aðila. Menn geta óskapast út í starfsstéttir sem þeir telja að gangi á þá samninga sem þær hafa gert en þá skyldu þeir líka líta í eigin rann, ekki síst þeir sem ganga, eins og hæstv. fjmrh. gerir, gegn þeim samningum sem forverar hans gerðu og staðfestu hér á þingi að byggðu á kjarasamningum og samningum hlutaðeigandi. Mér finnst hæstv. fjmrh. gerast sekur um það sem hann sakar aðra um.

Ég vil leggja áherslu á að um lög og reglur sem eiga að gilda um kjarasamninga og vinnudeilur á launamarkaði þarf að ríkja sátt. Það þarf að vera traust á milli aðila og þar þarf að ríkja sátt, það er mjög mikilvægt. Menn geta búið til alls kyns reglur en ef fólk hefur ekki trú á þeim, finnst þær ósanngjarnar, þá leita menn leiða til að fara á bak við þær. Þetta held ég að reynslan kenni okkur. Ef við viljum stuðla að því að menn virði reglurnar og að gangverk lýðræðisins sé sem best þá reyna menn að ná sátt. Grundvallaratriðið er að mínum dómi að staðið sé við samninga.

Ég hefði talið ráðlegt, herra forseti, og æskilegt að hæstv. fjmrh. drægi þetta frv. til baka, léti það ekki koma til endanlegrar atkvæðagreiðslu og ákvörðunar þingsins á þessu stigi. Það yrði tekið að nýju fyrir í haust og ég er sannfærður um að þá mundu menn ná landi, hugsanlega um þær breytingar sem hér er verið að leggja til en einnig aðrar sem samtök launafólks telja mikilvægt að ná fram. Á það bæri að líta sem skref í átt að þeirri heildarendurskoðun laganna sem hæstv. fjmrh. hefur áður lýst yfir úr þessum ræðustól og víðar að hann vilji beita sér fyrir.