Veitinga- og gististaðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:03:36 (7141)

2000-05-09 11:03:36# 125. lþ. 109.15 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, Frsm. meiri hluta ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn., þ.e. allra nefndarmanna utan eins.

Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar starfs viðræðunefndar sem hafði það hlutverk að sporna gegn starfsemi svonefndra erótískra veitingastaða. Í því er lagt til að lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, verði breytt á þann veg að flokkum veitingastaða yrði fjölgað. Er markmiðið með því að sveitarstjórnir geti haft áhrif á hvar slík starfsemi fer fram með því að kveða á um það í skilmálum aðal- eða deiliskipulags hvar heimilt sé að reka slíka staði. Þá geti þau einnig sett nánari skilyrði um það skemmtanahald sem fram fer á nektardansstöðum, umfram þau skilyrði sem gilda um skemmtanahald á öðrum veitingastöðum.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frv. Helsta efnisbreytingin er að nánar er kveðið á um hvers konar starfsemi falli undir hvern lið í flokkum veitingastaða í 2. gr. frv. Er m.a. kveðið á um að ef aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni teljist veitingastaður næturklúbbur í skilningi frv. Einnig er lagt til að nýr flokkur bætist við, dansstaðir. Er með því skilið á milli slíkra staða og næturklúbba. Þá er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að veitingastaðir sem falla undir nýja flokka skv. 2. gr. frv. skuli afla sér nýrra leyfa til reksturs fyrir 1. jan. 2001.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.