Veitinga- og gististaðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:05:22 (7142)

2000-05-09 11:05:22# 125. lþ. 109.15 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta samgn. við frv. til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum. Ég er flm. þessa minnihlutaálits.

Ég vil í upphafi taka fram að ég er fylgjandi því að kveðið sé nánar á um flokkun á veitingahúsum og veitingastöðum og skýrt nánar hvað þar eigi og skuli fara fram þannig að þessari atvinnustarfsemi sé veitt bæði öruggara og markvissara starfsumhverfi og einnig að neytendur, viðskiptavinirnir, viti sem best hvaða þjónustu þeir geta vænst að fá í mat og drykk og hvers þeir geta vænst að fá í skemmtiatriðum, dansi eða öðru slíku sem þá fýsir að taka þátt í og geta þar haft þá val um. Því fagna ég því að í frv. er bætt við flokkum. Þar er bætt við kaffihúsum, samanber einfalda veitingastaði með einfaldar veitingar í mat og drykk og þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar. Einnig er flokkurinn krá eða veitingastaður með einfaldar veitingar í mat þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar með takmarkaða þjónustu og síðan eru dansstaðir. Eins og hv. formaður samgn. gerði grein fyrir er bætt við nýjum flokki, dansstöðum, sem er þá til að árétta að þar skuli megináherslan lögð á dans og þar sem fólkið sjálft sem kemur er að dansa.

Afar mikilvægt er að þessi flokkun sé skýr þannig að viðskiptavinir geti valið og gert grein fyrir því á hvaða staði þeir eru að fara til að sækja það sem þeir eru að leita eftir.

Hins vegar tel ég gengið sé á óheillabraut varðandi næturklúbba þar sem nektardansi er gefið lagalegt skjól. Ég vil, herra forseti, vísa til nál. míns.

Minni hlutinn er hlynntur því að í frumvarpinu séu veitingastaðir skilgreindir nánar og flokkaðir eftir þeirri starfsemi sem þar fer fram, svo sem í matsölustaði, kaffihús og dansstaði, þótt vandséð sé hvernig hægt verður að fylgja eftir slíkri flokkun.

Herra forseti. Oft hefur reynst erfitt að skilgreina hvers eðlis matar- og veitingaþjónusta er á þessum stöðum þó svo að verið sé að reyna að flokka þá.

Minni hlutinn styður þess vegna þær breytingar sem settar eru fram í 1. og 2. gr. frv. að undanskildu því sem fram kemur í d-lið 2. gr. þar sem skilgreind er starfsemi næturklúbba. Með þeim lið er ekki annað séð en verið sé að festa í íslensk lög heimild til nektardanssýninga í atvinnuskyni. Undanfarin ár hefur verið mikil umræða hérlendis um starfsemi svonefndra nektardansstaða sem skotið hafa upp kollinum bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mikilvægt er að takmarka eða koma í veg fyrir starfrækslu slíkra staða enda þykir líklegt að á þeim eða í tengslum við þá sé stundað vændi í einhverjum mæli, vísbendingar eru um að mannréttindi kvenna sem komið hafa til að starfa á slíkum stöðum séu brotin og að einhverjar þeirra komi hingað til lands á fölsuðum vegabréfum. Einnig skal vakin athygli á því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram tillögur um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem ákvæði er um að refsivert sé að gera sér nekt annarra að féþúfu. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er það samið í kjölfar starfs viðræðunefndar sem komið var á fót vorið 1999 og var ætlað að sporna við starfsemi svonefndra ,,erótískra`` veitingastaða. Með því ákvæði sem hér er hafnað er ekki verið að sporna við neinu heldur er þvert á móti á vissan hátt verið að lögleiða þá afar umdeildu atvinnustarfsemi sem fram fer á slíkum stöðum. Minni hlutinn hafnar því að sett séu í íslensk lög ákvæði um að nota megi nekt í atvinnuskyni.

Herra forseti. Ég tel hættulegt að við séum með þessari lagasetningu að veita þessari mjög svo umdeildu atvinnustarfsemi skjól. Það hefur heldur ekki verið í öðrum lögum sem snerta starfsemi og geta veitt fólki örugga vernd. Það ber því að hafna því að þetta sé sett inn í lög með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að gera sér nekt annarra að féþúfu og því hafna ég.