Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:29:35 (7152)

2000-05-09 11:29:35# 125. lþ. 109.25 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og vil stuttlega gera grein fyrir í hverju hann er fólginn.

Þegar þetta frv. kom fyrst til umræðu hafði ég í frammi gagnrýni á frv. og alla málsmeðferð. Ég staðnæmdist fyrst við að um væri að ræða tryggingafélag sem rekið er með allgóðum hagnaði, í kringum 10 millj. kr. hagnaði á ári hverju. Ég setti strax spurningarmerki við að gera það að hlutafélagi. Þær spurningar ágerðust mjög þegar ég hlýddi á mál hæstv. viðskrh. sem fer með þennan málaflokk. Þar kom fram og reyndar einnig í frv. að henni yrði veitt heimild til að selja félagið án þess að fara aftur með það fyrir Alþingi eins og tíðkast þegar stofnanir í eigu hins opinbera eru gerðar að hlutafélögum. Ekki bætti úr skák þegar fram kom í máli hæstv. ráðherra að til stæði að selja tryggingafélagið á undirverði. Þá vöknuðu ýmsar spurningar sem óskað var svara við.

Þetta mál hefur fengið góða og vandaða meðferð í efh.- og viðskn. þingsins og þar hafa núna, með brtt. sem fylgja frv., verið settar skýrari reglur um hvernig staðið skuli að málum. Þó ég hafi jafnan fyrirvara á því þegar selja á félög og stofnanir í eigu hins opinbera og gefa af sér arð þá er mér ljóst að fyrir því er breiður meiri hluti að ráðast í þessar breytingar. Í ljósi þess að nú hafa verið settar skýrari reglur um hvernig staðið skuli að málum setti ég nafn mitt undir nál. en með fyrirvara.