Tryggingagjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:36:18 (7156)

2000-05-09 11:36:18# 125. lþ. 109.27 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:36]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald. Frv. þetta er afar einfalt. Það er ein efnisgrein og svo er ein gildistökugrein.

Nefndin sendi frv. til umsagnar allmargra aðila sem getið er um í nefndarálitinu og málið var tekið fyrir í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Það sem fjallað er um í þessu frv. tengist ákveðnum atriðum í því máli sem eru heimildir til aukinna framlaga í lífeyrissjóði.

Með frv. er gert ráð fyrir því að hlutfall tryggingagjalds sem launagreiðendur eða menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geta haldið eftir af gjaldstofni tryggingagjalds ef sá hluti er lagður fram sem mótframlag við iðgjaldshluta launamanns vegna viðbótarlífeyrissparnaðar, verði hækkað úr 0,2% í 0,4%. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt og undir þetta nefndarálit rita allir hv. nefndarmenn án fyrirvara.