Vörugjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:47:18 (7164)

2000-05-09 11:47:18# 125. lþ. 109.28 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, Frsm. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn. komst réttilega að orði þegar hann sagði að í þessu frv. væri að finna margar tölur. Staðreyndin er hins vegar sú að baki tölunum búa vörutegundir og flokkar sem verið er að lækka í flestum tilvikum vörugjöld á, í öðrum tilvikum hækka. Það er t.d. verið að lækka vörugjöld af ýmsum rafmagnsvörum sem koma að góðu gagni í innlendri iðnaðarframleiðslu og er það vel. Hins vegar er ekki jafngott að hækkað skuli gjald af kakódufti, sem er notað sem fæðubótarefni fyrir sjúklinga og aldraða, t.d. inni á sjúkrahúsum landsins og mun valda þar búsifjum.

Hins vegar er ríkisstjórnin að leggja til að færa niður gjöld af nasli, skífum, skrúfum, hringjum, keilum, saltstöngum, poppkorni og byssum, og hugsunin eflaust sú að byssuvæddur jeppastjórinn, sem nýbúinn er að fá niðurfellingu á sköttum af jeppa sínum upp á 700 þús. kr., fái núna líka niðurfellingu á vörugjaldi af rifflinum sínum.

Þetta var allt saman réttlætt í efh.- og viðskn. í ljósi þess að menn vildu stuðla að útivist og þess vegna væri verið að lækka skatta af rifflum en heldur urðu einhverjir kindarlegir á svipinn þegar það fylgdi sögunni að jafnframt væri verið að lækka vörugjald af öðrum hlutum því með byssunni fylgdu byssustingir, lensur, sverð og áþekk vopn og hlutar til þeirra, ,,og skeiðar og slíður til þeirra``, eins og þetta er orðað, marghleypur og skammbyssur og marmari að sjálfsögðu. Allt er þetta lækkað að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem vill tryggja réttlæti í skattamálum.

Þetta frv. hefur í för með sér 150 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð og þótt þetta sé aðeins lítill hluti af tekjum sem ríkissjóður hefur af vörugjöldum, þær munu nema um 3.000 millj. kr., sýnir þetta þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin vill hafa þegar hún beitir sér í skattamálum. Fyrst eru það stóru jepparnir og síðan koma byssurnar og að sjálfsögðu einnig byssustingirnir, poppkornið, saltstangirnar og naslið. Út á það gengur það frv. sem ríkisstjórnin segir að sé mikið réttlætismál, það þurfi að samræma í vörugjaldi sem á öðrum sviðum en þetta er sá háttur sem hún vill hafa á.

Minni hlutinn telur að þessar breytingar eigi að bíða heildarendurskoðunar á lögum um vörugjald. Við teljum mjög brýnt að slík heildarendurskoðun fari fram og kemur það fram í áliti sem ásamt mér skrifa undir hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir. Þar koma fram áhyggjur okkar vegna tekjutaps ríkissjóðs. Við erum því samþykk að stuðningur sé veittur með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir við íslenska iðnaðarframleiðslu en viljum að aðrar breytingar bíði endurskoðunar á lögunum auk þess sem við vörum við því að hækka skatta á matvæli sem eru sannarlega mikilvæg fæðubótarefni.

Í minnihlutaálitinu segir m.a, með leyfi forseta:

Ýmissa grasa kennir í þessu frumvarpi en samkvæmt því er vörugjald fellt niður af snakki, poppkorni, salthnetum, saltkexi og saltstöngum. Hins vegar er vörugjald af kakódufti hækkað og horfir það undarlega við í ljósi þess að hér er um að ræða vöru sem fremur verður flokkuð sem nauðsynjavara en þær vörutegundir sem að framan greinir, enda t.d. notað sem fæðubótarefni fyrir sjúklinga og aldraða. Þá má nefna að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun á vörugjaldi af skotvopnum og öðrum vopnum, svo sem sverðum, byssustingjum og lensum. Minni hlutinn telur vandséð að það flokkist undir forgangsverkefni að auðvelda aðgang landsmanna að þessum tólum með sérstökum skattalækkunum. Minni hlutinn telur að þessar breytingar eigi að bíða heildarendurskoðunar á lögum um vörugjald sem brýnt er að fram fari.