Vörugjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:15:37 (7168)

2000-05-09 12:15:37# 125. lþ. 109.28 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hefur komið fram í umræðunni er megininntak þessa frv. að koma til móts við ákveðna atvinnustarfsemi í landinu, einkum á sviði raftækjaframleiðslu eða sem tengist raftækjabúnaði af ýmsu tagi. Það er ekkert launungarmál að bæði það atriði og ýmis önnur hér hafa löngum verið á óskalista Samtaka iðnaðarins um breytingar á gjöldum á atvinnurekstrinum. Nú töldum við að ákveðið svigrúm væri til að koma til móts við þessar óskir og þau vandamál sem þarna eru vegna þess að í dag er þetta gjald lagt á og síðan endurgreitt til hluta framleiðenda á þessu sviði, rafverktaka og annarra, og endar með miklu klúðri. Við teljum að nú sé svigrúm til að reyna að koma til móts við þetta sjónarmið og til þess séu aðstæður.

Hitt er svo annað mál að Samtök iðnaðarins gagnrýna gjarnan ríkisstjórnina, m.a. fyrir aðhaldsleysi, milli þess sem samtökin skrifa okkur bréf og biðja um að meira verði fellt niður af gjöldum. Þannig virðist stundum eins og hægri höndin hjá þeim samtökum viti ekki hvað sú vinstri er að gera.

En hvað um það, niðurstaða ríkisstjórnarinnar var að tilefni væri til þess að gera þessa breytingu og jafnframt taka á nokkrum samræmingaratriðum, eins og t.d. þeim að láta íþróttaskotvopn lúta sömu lögmálum og veiðivopn. Menn geta auðvitað lesið upp úr tollskránni og hent gaman að því að í tollflokkum hennar er að finna alls kyns hluti sem löngum hefur verið hlegið að í tengslum við þetta. Skriðdrekar og brynvarðir vagnar eru einn tollflokkurinn sem ég held að beri ekkert vörugjald. Það má auðvitað henda gaman að þessu með byssustingi, sverð og lensur og þess háttar en það hefur ekki nokkra minnstu þýðingu hvorki í þessu frv. né á fjárhag ríkissjóðs. Aðalatriðið er að hér er verið að samræma og koma til móts við ákveðnar kröfur og þarfir í íslensku atvinnulífi.