Vörugjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:21:26 (7171)

2000-05-09 12:21:26# 125. lþ. 109.28 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:21]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að löggjöfin um vörugjaldið er gölluð. Göllum hennar hefur fremur fjölgað á undanförnum árum og kannski við að Alþingi hafi tekið ákvarðanir án þess að fyrir því lægju sterk rök eða samræmd heildarskoðun á lögunum, t.d. um að fella niður vörugjald t.d. af byssum og ýmsum fylgihlutum þeirra. Þegar teknar eru ákvarðanir um svona breytingar þá vantar þessa heildarskoðun á vörugjaldi eða á þessum gjaldflokki sem skilar ríkissjóði vissulega 3 milljörðum í tekjur. Ég er enn jafnsannfærð um að heildarskoðun þurfi nauðsynlega að eiga sér stað og það þarf að gera í samræmi við endurskoðun á virðisaukaskattinum með tilliti til þeirra tekna sem ríkissjóður hefur.

Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að í því felst neyslustýring þegar vörugjald er lagt á hluta af einhverju snakki, poppi eða aðra slíka vöru, þó ekki sé að öllu leyti og komi þannig ekki jafnt yfir alla. En það er þá ekkert annað en neyslustýring ef hæstv. landbrh. gerir samning um það að fella niður tolla af innflutningi á 15 tonnum af norskum kartöfluflögum. Það er auðvitað bara neyslustýring og ekkert annað. Það er verið að stýra þessum markaði, sem ég þekki ekki stæðina á, yfir á norskar kartöfluflögur gegn því sem framleitt er hér heima. Það finnst mér röng ákvörðun. Það er bein stýring og ekki í samræmi við það sem hæstv. ráðherra hefur lýst að vaki fyrir með frv. sem hér er til umræðu.