Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:23:57 (7172)

2000-05-09 12:23:57# 125. lþ. 109.29 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:23]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt.

Í frv. þessu er fyrst og fremst verið að taka á ýmsum framkvæmda- og tækniatriðum og færa þau til betri vegar til að skerpa á framkvæmdinni og koma í veg fyrir ýmsan rugling.

Mál þetta var sent til umsagnar og gestir komu á fund nefndarinnar eins og getið er um í nál.

Nefndin gerir tvær tillögur um breytingar á frv. Þær brtt. felast ekki í efnisbreytingum á greinum frv. heldur er annars vegar um að ræða breytingu á gildistökuákvæðum frv. þannig að þau gildi við upphaf virðisaukaskattstímabils 1. júlí. Hins vegar er gerð tillaga um að skýrt sé kveðið á um að frumsala svokallaðrar tilefnismyntar, sem gefin er út af Seðlabanka Íslands, sé undanþegin skattskyldu enda þótt söluverð sé hærra en svokallað ákvæðisverð.

Þetta er nauðsynlegt vegna þess að fyrirhuguð er útgáfa myntar í tilefni þeirra tímamóta sem eru á þessu ári. Seðlabankinn hefur í hyggju að gefa út mynt og nauðsynlegt er að um það sé skýrt á kveðið í virðisaukaskattslögunum.

Virðulegi forseti. Undir nál. rita allir nefndarmenn en þó gera hv. þm. Jóhanna Sigurðarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson það með fyrirvara.