Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:26:23 (7173)

2000-05-09 12:26:23# 125. lþ. 109.29 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn. talaði svo lágt að ég heyrði ekki nákvæmlega hvaða þætti frv. hann fór yfir.

Við stöndum að þeim breytingum sem hér eru gerðar og teljum þær flestar ef ekki allar heldur til bóta. Þó viljum við vekja sérstaka athygli á að þarna er um að ræða tekjutap fyrir ríkissjóð upp á um 100 millj. kr. Má þó vera, eins og ítrekað hefur komið fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal í umræðunni, að breytingarnar sem hér eru gerðar verki hvetjandi og eigi eftir að skila auknum tekjum á móti. Hér er þó fyrst og fremst um leiðréttingu að ræða og teknir upp ýmsir þeir þættir sem ekki voru nógu skýrir áður í löggjöf, t.d. hvað varðar skattskyldu mötuneyta í eigu ríkis og sveitarfélaga sem selja starfsfólki mat á verði undir framleiðslukostnaði, sem er í töluverðum mæli.

Fyrirvari okkar er fyrst og fremst vegna þess að fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að þessar breytingar séu taldar hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs en síðan er áætlað að endurgreiðslur til veitingahúsa geti hækkað um 100 milljónir verði frv. að lögum.

Í þeirri samantekt sem við fengum frá efnahagsskrifstofu fjmrn., þar sem við óskuðum eftir því að tekin yrðu saman tekjuáhrif vegna frv. sem hafa verið lögð fram, er niðurstaðan sú að þetta þýði um 100 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Fyrirvari okkar er fyrst og fremst byggður á því. Við vildum vekja athygli á að öll þau frv. sem hér eru komin til 2. umr. hafa í för með sér verulegan tekjumissi fyrir ríkissjóð. Við teljum að þurft hefði að skoða það betur í heild sinni og vörum við því að rýra um of tekjur ríkissjóðs á sama tíma og ýmsar helstu efnahagsstofnanir landsins hafa hvatt til aukins sparnaðar, ráðdeildar í ríkisrekstri og niðurgreiðslu skulda. Við teljum að eðlilegra hefði verið að láta ýmsar þær breytingar sem ekki eru mjög knýjandi bíða.