Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 12:29:35 (7174)

2000-05-09 12:29:35# 125. lþ. 109.29 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. efh.- og viðskn. en með fyrirvara og vil í örfáum orðum gera grein fyrir honum. Rökstuðningur minn er mjög á sömu lund og fram kom í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Við viljum vekja athygli á tekjumissi ríkissjóðs vegna þessa frv. og reyndar annarra frv. einnig. Safnast þegar saman kemur. Núna liggja fyrir Alþingi mörg frv. sem gera ráð fyrir verulegum samdrætti í tekjum ríkissjóðs og hleypur sá samdráttur á milljörðum.

[12:30]

Hér er um að ræða 100 millj. kr. tekjutap hjá ríkissjóði vegna þessara breytinga. Þegar þær eru skoðaðar hver um sig má rökstyðja að þær eigi sumar hverjar og e.t.v. flestar rétt á sér. Ég gerði athugasemd við það við fyrri umræður um þetta mál að ég teldi vafasamt að skattleggja mötuneyti opinberra stofnana og vísaði þar til skóla og heilbrigðisstofnana. Fram kom í umfjöllun efh.- og viðskn. að þetta væri sá háttur sem hafður væri á. Hér væri verið að treysta lagalegan grundvöll á fyrirkomulagi sem væri þegar við lýði. Það munu hafa komið upp einhver álitamál á sjúkrahúsi, á Sauðárkróki held ég það hafi verið, þar sem menn töldu að þeim bæri ekki að greiða virðisaukaskatt en staðreyndin er engu að síður sú að það mun vera gert. Ég hef efasemdir um að þetta sé réttlætanlegt en geri ekki stórar athugasemdir í ljósi þess að þetta hefur verið tíðkað á undanförnum árum.

En þetta er ástæðan fyrir því að ég hef sett nafn mitt undir nál. með fyrirvara, efasemdir um að ríkissjóður eigi að ráðast í allar þær skattalækkanir sem verið er að gera en flestar eru þær á þá lund að þær ívilna þeim sem hafa meiri fjárráð í þjóðfélaginu en minna er hugað að hinum sem hafa minni tekjurnar.