Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:08:16 (7188)

2000-05-09 13:08:16# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:08]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er því miður ekki sama sinnis og hv. þm. Ég tel mig ekki hafa neina vissu fyrir því að þær tillögur sem komi frá þessum nefndum verði samkomulagsniðurstaða. Vonandi verða þær það. Það segi ég sannarlega. En ég sé ekki ástæðu til þess fyrir fram að vera viss um það.

Hvort ekki hafi verið ástæða til þess að vinna tíma til þess að vinna að þessum að málum. Það má vel vera að það þurfi einfaldlega vegna þess að þeir sem stjórna í þessu landi ætla sér að hafa þennan langa tíma til að taka á málinu. En það sem ég hef verið að gagnrýna er að ég tel að þær aðferðir sem hér eru notaðar séu ekki boðlegar Alþingi. Menn hefðu átt og borið skylda til að velja leiðir sem uppfylltu þá niðurstöðu Hæstaréttar og síðan Alþingis að það hefði verið brot á stjórnarskránni að gefa út þessi veiðileyfi og þá áttu menn sér ekki undankomu auðið. Menn áttu auðvitað að ganga til móts við þessa niðurstöðu og breyta úthlutunarreglum fyrir þessa báta þannig að allir fengju þarna veiðileyfi. Hvað annað? En að ætla sér að halda áfram að brjóta stjórnarskrána árum saman eftir að dómur Hæstaréttar liggur fyrir er auðvitað fráleitt og Alþingi bókstaflega til hreinnar skammar að gera það.