Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:35:13 (7190)

2000-05-09 13:35:13# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Í 1. maí ræðu hélt málshefjandi því fram að samningurinn um Sóltúnsheimilið væri dæmi um pólitíska spillingu og fullyrti að á vegum ríkisstjórnarinnar væru starfandi ráðgjafar til að gæta þess að gróðaliðið næði sínu fram, eins og hv. 13. þm. Reykv. orðaði það svo smekklega á 1. maí. Ég bið hv. 13. þm. Reykv. að finna orðum sínum stað.

Virðulegi forseti. Fæst hjúkrunar- og dvalarheimili eru ríkisrekin á Íslandi. Þau eru annaðhvort rekin af sveitarfélögum en þó einkum sjálfseignarstofnunum í eigu félagasamtaka. Þetta eru sjálfseignarstofnanir sem eiga sér langa og merkilega sögu og hafa skilað heiðarlegu og góðu verki í íslensku samfélagi.

En hver er munurinn á Öldungi hf., sem sjá mun um Sóltúnsheimilið, og Hrafnistu og Grund? Munurinn er sá að Öldungur hf. er einkafyrirtæki en hin sjálfseignarstofnanir. Fyrir fram er engin ástæða til að ætla að fyrirtækið skili ekki eins góðri þjónustu.

Það er fullyrt opinberlega, m.a. af hálfu hv. 8. þm. Reykv., að gert hafi verið sérstaklega vel við Öldung hf. í daggjöldum og sama málflutningi heldur hv. málshefjandi uppi með 2. spurningu sinni sem hér liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Daggjöld á hjúkrunar- og dvalarheimilum eru frá áramótum ákvörðuð á grundvelli RAI-mats sem er alþjóðlegur mælikvarði á hjúkrunarþyngd sjúklinga. Þau eru í sjö flokkum sem eru og verða verðlagðir með mismunandi hætti allt eftir þörf vistmanna fyrir þjónustu og aðhlynningu. Þannig eru daggjöldin ekki lengur ákvörðuð á grundvelli tilfinninga fyrir hjúkrunarþyngd sjúklinga, hér er beitt samræmdu hlutlægu mati á öllum stofnunum, hjá Grund, DAS og nú síðast hjá Öldungi hf. Það eru stofnanirnar sjálfar sem meta sjúklingana á grundvelli þessa mats undir eftirliti RAI-matsnefndar sem starfar á vegum ráðuneytisins. Ef forsvarsmenn stofnana koma núna og telja sig vera með þyngri sjúklinga en RAI-matið segir til um og að þeir séu þess vegna með of lág daggjöld, þá er eitthvað að matinu sem þeir gera eða þá að þörf vistmanna fyrir þjónustu hefur breyst og aukist.

Vera kann að breyta þurfi daggjöldum á grundvelli RAI-matsins hjá einhverjum stofnunum en þau geta bæði lækkað og hækkað. Sú hækkun eða lækkun verður ekki gerð á grundvelli samningsins um Sóltúnsheimilið heldur á grundvelli RAI-matsins.

Virðulegi forseti. Tilgangurinn með Sóltúnssamningnum er að mæta brýnni þörf fyrir mjög veika aldraða einstaklinga á Reykjavíkursvæðinu sem nú liggja inni á sjúkrahúsum þar sem kostnaður á rúm er langtum hærri en verður á Sóltúnsheimilinu. Rekstrarkostnaður á legudag er um 20 þús. kr. á bráðadeild en hann er um 16.500 á öldrunarlækningadeild og verður um 12 þús. kr. í Sóltúni. Með einkaframkvæmd teljum við okkur því hafa náð góðum samningum á grundvelli strangra faglegra skilyrða.

Í öðru lagi er það rangt að Hrafnistu hafi verið meinað að bjóða í framkvæmdina. Forval var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og mér þykir það sjálfri miður að sjálfseignarstofnanir sem þekktar eru fyrir góðan rekstur og þjónustu skyldu ekki hafa boðið í framkvæmdina.

Sem svar við fjórðu og fimmtu spurningu vil ég segja þetta: Heilbrrn. mun sjá til þess að faglega verði staðið við samningana af hálfu Öldungs hf. Samningsgerðin var á forræði heilbr.- og trmrn. en fjmrn. kom að gerð samningsins svo sem venja er þegar um fjárskuldbindingar er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég kem nánar inn á daggjöld í seinni ræðu minni.