Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:42:32 (7192)

2000-05-09 13:42:32# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Sterk hefð er fyrir því að einkaaðilar eða sjálfseignarstofnanir reki öldrunarþjónustu hér á landi. Það er stefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að auka fjölbreytni í rekstri heilbrigðisstofnana og í auknum mæli að færa ábyrgð á rekstri einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar til einkaaðila eða annarra aðila samkvæmt sérstökum samningum. Þessi stefna er skýr en það þarf að framfylgja henni í auknari mæli hér eftir en hingað til.

Hér er til umræðu samningur sem fjmrh. og heilbrrh. hafa nýlega undirritað við einkaaðila um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis fyrir aldraða við Sóltún. Það hefur m.a. verið gagnrýnt að kostnaður sem ætlaður er til reksturs heimilisins sé hærri en við aðrar stofnanir fyrir aldraða. Í þessu sambandi verður að hafa eftirfarandi í huga:

Nýtt hjúkrunarheimili mun einkum þjóna öldruðum einstaklingum sem þarfnast mikillar hjúkrunar og sem að öðrum kosti væru vistaðir á sjúkrahúsum. Í því felst að auknar kröfur eru gerðar til fjölda starfsmanna og aðbúnað á heimilinu. Daggjöld á hinu nýja heimili eru um 14.300 á dag en kostnaður við vistun sama einstaklings á sjúkrahúsi er á bilinu 20--30 þús. á dag ef viðkomandi liggur á öldrunardeild en mun meiri ef hann liggur á venjulegri sjúkradeild. Í þessu felst töluverður sparnaður í rekstri heilbrigðisþjónustu því fjölmargir aldraðir einstaklingar liggja nú á sjúkrahúsum sem ættu í raun réttri að vera á hjúkrunarheimili.

Til grundvallar mati á kostnaði við rekstur þessa heimilis var lögð umfangsmikil þarfagreining þar sem allir þættir í uppbyggingu og starfsemi heimilisins voru skoðaðir. Þetta eru fyrirmyndarvinnubrögð og því vænti ég að staðlar sem settir voru þar um gæði þjónustu, aðbúnað og mönnun verði hafðir til hliðsjónar í öldrunarþjónustu í framtíðinni. Ákvörðun um daggjöld til heimilisins setur einnig viðmið um kostnað við umönnun þyngstu skjólstæðinga öldrunarþjónustunnar. Það ætti að skapa grundvöll fyrir hugsanlega endurskoðun á kostnaði við rekstur annarra heimila þar sem samsetning íbúa með tilliti til þjónustuþarfar er önnur.