Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:44:45 (7193)

2000-05-09 13:44:45# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við ákvörðun um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis í Reykjavík var framfylgt stefnu stjórnvalda á áætlun um einkavæðingu. Nú hefur útboðið farið fram og ljóst er að enn fleiri spurningum en fram komu í fyrirspurnatíma hér á Alþingi þann 23. febrúar sl. er ósvarað. Það er mikilvægt að hæstv. heilbrrh. geri Alþingi grein fyrir því hvernig þetta einkavæðingarmál hins nýja hjúkrunarheimilis Sóltúns hefur þróast. Það mun hæstv. heilbrrh. ekki geta gert með fullnægjandi hætti í stuttu svari svo best væri að fá skýrslu um málið, þ.e. hvernig á og á hvaða forsendum útboðslýsingar Sóltúns mótuðust. Hvaða kröfur voru gerðar um þjónustu miðað við önnur hjúkrunarheimili? Því spyr ég hæstv. heilbrrh. hvort fækka eigi hjúkrunarrýmum fyrir aldraða þar sem greinilega á að taka úr sameiginlegum sjóði miklu hærri rekstrargjöld til einkavæddra hjúkrunarheimila en til annarra eða hvort stórhækka eigi framlög til þessa reksturs. Valið stendur á milli þessara tveggja kosta því að jafnræðisreglan hlýtur að gilda hvað varðar rekstrargrunn hjúkrunarheimila í landinu. Fram hefur komið að framlag til reksturs hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík verði hærra en til annarra hjúkrunarheimila og skýrt með því að hjúkrunarþyngdin verði meiri en á öðrum heimilum. Einnig hefur heyrst að reka eigi Sóltún sem hátæknihjúkrunarheimili og rétt væri að fá svör við því hvort það skilyrði hafi komið fram við útboðslýsingu og í samningi við Öldung hf. hvað felst í þeirri skilgreiningu.

Herra forseti. Það verður að vera alveg ljóst hver munurinn verður á þjónustu hins einkarekna hjúkrunarheimilis Sóltúns og annarra hjúkrunarheimila með tilliti til hins mikla verðmunar á daggjöldum á milli heimila.

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þróun þessara mála í framtíðinni, þ.e. ef umönnun sjúkra/aldraðra á að byggjast á atvinnusjónarmiðum fjárfesta. En ég fagna því að byggð skuli vera fleiri hjúkrunarheimili.