Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:47:01 (7194)

2000-05-09 13:47:01# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í þessari umræðu þarf að svara tveimur meginspurningum. Annars vegar: Er verið að marka grundvallarbreytingu á rekstri heilbrigðiskerfisins á Íslandi? Svarið við því er nei. Einkaaðilar reka í dag fjölmörg hjúkrunar- og vistheimili og ýmsar heilbrigðisstofnanir við hlið ríkisrekinna heilbrigðisstofnana. Enginn getur með góðu móti haldið því fram að stofnanir á borð við Grund, Hrafnistu og heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði séu illa reknar eða hafi mistekist, heldur þvert á móti.

Í öðru lagi hljótum við að þurfa að svara þeirri spurningu hvort hér sé verið að draga úr þjónustu við sjúka aldraða. Svar við þeirri spurningu er líka nei. Þvert á móti er verið að gera samning sem kveður á um betri búnað, meiri umönnun og rýmra húsnæði á sjúkling en þekkist í kerfinu í dag. Hér er verið að stíga merkilegt skref fram á við hvað varðar umönnun sjúkra aldraðra.

Hugsanlega mætti gagnrýna harða kröfu hæstv. heilbrrh. um jafnvel of hátt þjónustustig. Í kjölfarið er ekki ósennilegt að sambærilegar stofnanir vilji ná sama þjónustustigi. En, herra forseti, einhvern tíma hefðu slíkt þótt jákvæð tíðindi. Varla er hægt að mæla gegn því að nú skuli stigið enn eitt skref til að hlúa vel að öldruðum sjúkum í íslensku samfélagi. Það er kjarni málsins en það kostar auðvitað sitt.