Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 14:00:32 (7200)

2000-05-09 14:00:32# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er mikilvægt að ræða þetta. Aðalmarkmiðið er að veita sem besta þjónustu þannig að þeir aldraðir sjúkir sem nú eru á stofnunum eða sjúkrahúsum fari inn á þetta hjúkrunarheimili. Að því erum við að vinna.

Hér hefur verið talað um daggjöldin, að þau væru mismunandi. Frá og með áramótum er reiknað með þessu RAI-mati sem hér kom fram áðan og það er það sem við reiknum með. Það er þá ekki byggt á einhverri tilfinningu heldur á mælistiku sem er notuð alls staðar annars staðar í kringum okkur.

Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að t.d. hjúkrunarþyngd væri meiri á DAS en við greiddum fyrir, þá vorum við að fá síðla í gær nýtt hjúkrunarmat þaðan. Og það er auðvitað ekki búið að taka á því. Það hljóta allir að skilja því að menn hafa verið að endurskoða hjúkrunarþyngdina einmitt á síðustu dögum.

En markmið mitt frá því að ég settist í stól heilbrrh. hefur verið og mun verða að sem flestir og allir fái þá bestu mögulegu þjónustu sem hægt er að veita á hverjum tíma. Af því að hér kom líka fram að hér hefur verið beðið um að Ríkisendurskoðun fari í gegnum samninginn sem gerður var, þá fagna ég því alveg sérstaklega því að við höfum aldrei gert jafnnákvæma þarfagreiningu og einmitt núna og útboðslýsingin er svo nákvæm og það eru gerðar það miklar kröfur að ég held að það sé gott fyrir okkur öll að fá þá úttekt.