Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:02:56 (7223)

2000-05-09 17:02:56# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer svo vel á með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. formanni efh.- og viðskiptanefndar að mér finnst eiginlega óviðeigandi að blanda mér í þau skoðanaskipti.

En út af orðum hv. þm. fyrr í umræðunni get ég sagt það til að byrja með að ég er ákaflega ánægð að heyra það mikla traust sem hún ber til mín. Mér finnst reyndar að hún hefði mátt sýna það meira í verki með því að standa þá með meiri hlutanum að áliti og að málinu í heild sinni því að varla óttast hún að málið komi að hluta til aftur til ráðuneytisins miðað við öll þessi fögru orð.

Ég get alveg samþykkt það með hv. þm. að sú löggjöf sem við erum nú að setja er ekki endanleg. Það á eftir að vinna áfram að þessum málum og ég treysti því og er reyndar alveg sannfærð um að sá áfangi sem við munum vonandi taka síðar á þessu ári og varðar ekki síst innherjaviðskipti er mjög mikilvægur. Það þarf einfaldlega örlítið meiri tíma til að sú lagasetning geti farið fram núna þannig að vel sé.

Um þær spurningar hv. þm. sem lúta að Fjármálaeftirlitinu og hún bar upp þá er það nú svo, eins og hún veit, að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun og fer með eftirlitsþátt á verðbréfamarkaði og fjármagnsmarkaði. Mér finnst mikilvægt að ráðuneytið sé ekki að skipta sér allt of mikið af því sem Fjármálaeftirlitið gerir en fylgist hins vegar að sjálfsögðu með því. Það er rétt sem kom fram í máli hennar að Fjármálaeftirlitið lét koma fram í bréfi sínu miklar athugasemdir gagnvart ákveðnum stofnunum og eins og hv. þm. nefndi er það á ábyrgð stjórna viðkomandi stofnana að sjá til þess að tekið sé mark á þeim ábendingum.